Pétur Pétursson fimmtudagurinn 20. október 2016

Eldur í parhúsi á Borg í Grímsnesi 19.10.2016

Slökkviliðseiningar Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti og Selfossi voru boðaðar út í gær vegna elds í parhúsi við Borgarbraut í Grímsnesi um klukkan korter yfir fjögur síðdegis í gær. 

Þrjár manneskjur höfðu verið inni í húsinu er eldurinn kom upp en fólkið komst allt út af sjálfsdáðum. Talsverður reykur var í húsinu en eldurinn náði þó ekki að dreifa sér um bygginguna frá upphafsstað. 

Greiðlega gekk að slökkva eldinn eftir að reykkafarar komu á staðinn og gekk starf slökkviliðs á vettvangi vel. Hundur hafði lokast inni í íbúðinni og tókst reykköfurunum að ná honum lifandi út. 

Eldurinn virðist hafa kviknað í einu af svefnherbergjum hússins en ekki er ljóst á þessari stundu út frá hverju kviknaði. 

Allir þrír sem í húsinu voru er eldurinn kom upp voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar og frekari skoðunar.

1 af 4

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði æfðu kalda reykköfun í Hveragerði síðastliðið fimmtudagskvöld við kjör aðstæður. Áður en hafist var handa við reykköfunina sjálfa fóru menn yfir inngöngu- og stútatækni. 

Reykköfun er afar erfið vinna sem reynir bæði á andlega og líkamlega. Hana þarf stöðugt að vera að æfa til þess að viðhalda bæði færni slökkviliðsmanna og sjálfstrausti til þess að geta framkvæmt verkið á skilvirkan og öruggan hátt.

1 af 4

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Árnesi, Flúðum, Laugarvatni, Selfossi og Þorlákshöfn komu saman í Árnesi mánudagskvöldið 3 október síðatliðin til æfinga. Markmið æfinganna var að æfa tækni í inngöngu í brunarými, stútatækni og köld reykköfun. Að ýmsu er að huga er slökkviliðsmenn sækja að eldinum. Oft á tíðum hefur eldurinn kvoðnað niður vegna súrefnisskorts og getur því verið hættulegt að opna inn í rýmið án sérstakra ráðstafanna þar sem eldurinn getur náð sér upp á ógnarhraða við aukið súrefnisflæði inn í rýmið. Slökkviliðsmennirnir æfðu tveggja manna inngöngutækni þar sem annar opnar hurðina nægilega til þess að hinn geti sprautað nokkrum skotum af fínum vatnsúða upp í brunagasið (reykinn). Að því loknu er hurðinni lokað aftur og vatnsúðinn látin kæla reykinn. Þetta er stundum endurtekið nokkrum sinnum en það fer eftir eðli og umfangi. Eftir að aðstæður eru taldar ásættanlega öruggar ráðast slökkviliðsmennirnir inn og sækja beint að eldinum eftir ákveðnu verklagi. 

Þrír slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu tóku þátt í flugslysaæfingu ISAVIA með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og fleiri góðum aðilum laugardaginn 1 október síðastliðin. 

Sett var á svið flugslys og voru ýmis meðul notið til þess að gera æfinguna sem raunverulegasta. Dagurinn hjá okkar mönnum hófst á fundi með SHS mönnum þar sem farið var yfir uppbyggingu æfingarinnar og hvert hlutverk hverrar einingar yrði á henni. Það féll í hlut BÁ manna að bjarga fólki úr flugvélaflaki (úr topplúgu á rútu) sem gekk með ágætum eins og æfingin öll. 

Að lokum var rýnt í æfinguna eins og venja er og dregin af henni lærdómur.

1 af 3

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni, Reykholti, Hveragerði og Selfossi æfðu björgun fastklemmdra í mannvirkum laugardaginn 24 september síðastliðin. Æfingin var haldin í Írafossvirkjun þar sem sett var á svið vinnuslys við erfiðar aðstæður en þar hafði þungur fleki fallið á mann. Slökkviliðsmenn þurftu að komast að slysstað með reykköfunartæki og bjarga manninum undan farginu með sérhæfðum búnaði. Að lokum þurfti síðan að koma manninum á bakbretti út undir bert loft úr virkjunarmannvirkinu. 

Æfingin var krefjandi og snerti á ýmsum flötum sem vert var að velta upp og skoða. 

Góð æfing í alla staði og lærdómsrík.

Vefumsjón