Okkar öryggi!!

Brunavarnir Árnessýslu

Samfélagið okkar hér á Suðurlandi hefur þurft að horfast í augu við erfiða atburði hvað eldsvoða varðar. Því miður kemur það fyrir að eldar kvikna í íbúðarhúsnæði, slys verða, eigur tapast og því miður gerist það stundum að fólk lætur lífið í þessum sorglegu atburðum.

Hvað getum við gert til þess að minnka líkurnar á að illa fari? Að fara varlega með eld og rafmagnsvörur er lykilatriði hvað þetta varðar. Ekki skilja logandi eld eftir í rýmum þar sem enginn er. Haga uppsetningu kerta og kertaskreytinga þannig að loginn komist ekki að öðru brennanlegu efni hvorki með beinni snertingu né þannig að geislunarvarmi frá loganum nái að hita annað brennanlegt efni svo í því geti kviknað.

Ef hinsvegar eldur kemur upp og hægt er að komast að til að slökkva á upphafsstigi hans, er mikilvægt að slökkvitæki séu til staðar og að þau hafi verið yfirfarin reglulega þannig að virkni þeirra sé sem tryggust. Við hjá slökkviliðunum mælum einnig með því að fólk eigi auk slökkvitækja, eldvarnateppi til þess að geta breitt yfir og kæft eldinn sé þess kostur. Þetta á sér í lagi við um eld í eldunaráhöldum á eldavélum en má svo sannarlega nota í fleiri tilfellum.

Reykskynjarar eru einhver ódýrasta líftrygging sem við getum fjárfest í. Á undanförnum árum hefur samsetning efna í húsgögnum breyst til muna og brenna þau nú mun hraðar en áður og gefa frá sér mun eitraðri reyk en þau gerðu fyrir nokkrum áratugum síðan. Þetta veldur því að ef upp kemur eldur á heimilum fólks hefur það umtalsvert skemmri tíma til þess að forða sér út úr húsnæðinu áður en illa kann að fara. Rétt staðsettir reykskynjarar vara okkur við hættunni á upphafsstigi eldsins og gefa okkur þar með þann kost að geta gripið inn í atburðarrásina eða þá möguleika á að forða okkur út meðan tækifæri er enn til. Einnig gefa hljóðmerki frá reykskynjurum okkur tækifæri á að hringja í Neyðarlínuna 112 fyrr en ella, eftir aðstoð slökkviliðs sem eykur líkurnar á því að slökkvilið nái að grípa inn í atburðarrásina áður en miklar skemmdir verða.

Margir hafa sett það fyrir sig að þeir gleymi að skipta um rafhlöður í reykskynjurunum sínum en í hefðbundnum skynjurum hefur hingað til þurft að skipta um rafhlöður einu sinni á ári. Slökkviliðsmenn hafa þá gjarnan bent fólki á að fyrsti desember ár hvert er alþjóðlegur dagur reykskynjarans og því tilvalið að hafa það sem reglu hjá sér að skipta um rafhlöður á þeim degi. Gott er að prófa reglulega yfir árið virkni reykskynjaranna með því að ýta á prófunarhnappinn sem á þeim er.

Í dag eru einnig komnir á markaðinn reykskynjarar sem endast í allt að tíu ár. Að þeim tíma loknum er skynjaranum sjálfum skipt út og kemur því ekki til að skipta þurfi um rafhlöður í þeim.
Í þessum efnum þarf hver og einn að finna sína leið en um mikilvægi þess að hafa reykskynjara á heimilum verður ekki deilt.

Hugsaðu þig tvisvar um húsráðandi góður áður en þú býður einhverjum gistingu á heimili þínu (fjölskyldumeðlim eða gestum), án þess að hafa þessi mikilvægu öryggismál í lagi.

 

Bálkestir og brennur

Bálkestir og brennur

Brunavarnir Árnessýslu

Nú líður að verslunarmannahelginni og huga margir á skemmtilegar samverustundir með sínum nánustu í nátúrunni á þessum tíma. Tekið er að rökkva á kvöldin og er því eðlilegt að álykta sem svo að varðeldagenið í íslendingnum geri vart við sig. Þá er mikilvægt að fara að öllu með gát.

Árið 2015 komu út ný lög nr. 40 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og í kjölfarið var gefin út reglugerð árið 2016 nr. 325 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

Ekki þarf lengur sérstakt leyfi sýslumanns til þess að brenna bálköst sem er undir einum rúmmetra að stærð og logar ekki lengur en eina klukkustund samkvæmt 18.gr reglugerðarinnar. Slíkur bálköstur flokkast sem lítil brenna og er fjallað um hann í 19 grein reglugerðarinnar.

Gæta þarf þess að litlar brennur séu ekki nær íbúabyggð en 100 metra og hún skal þannig staðsett að ekki sé hætta á að eldur geti breiðst út. Bálköstinn skal staðsetja þannig að aðgangur sé að nægu slökkvivatni komi þær aðstæður til þess að grípa þurfi til þess.

Nokkrir punktar:

Sá sem ber ábyrgð á bálkestinum þarf að vera á staðnum allan tíman meðan bálkösturinn brennur (23.gr reglugerðar).

Gæta skal ítrustu varkárni við alla meðferð opins elds og ekki skilja við hann óvaktaðan (3.gr reglugerðar).

Óheimilt er að senda á loft logandi kertaluktir (5.gr reglugerðar).

Óheimilt er að kveikja eld í bálkesti að nóttu til frá klukkan 23:00 til 06:00 (19.gr reglugerðar).

Ekki skal kveikja í bálkesti ef meðalvindur er meiri en 10 metrar á sekúndu eða ef vindátt er óhagstæð á brennustað (8.gr reglugerðar).

Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs (4.gr reglugerðar).

Samkvæmt 9. grein laga nr.40 2015 um bótaábyrgð, mun sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé, bera fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst og er jafnframt heimilt að innheimta kostnað við útkall slökkviliðs hjá þeim sem tjóninu veldur með saknæmum hætti.

Samkvæmt 18. grein reglugerðarinnar er óheimilt að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en einn rúmmetra af efni.

Með von um farsæla verslunarmannahelgi

 

Komast þínir gestir út?

Mikið er rætt um ferðamennsku á Íslandi í dag og sitt sýnist hverjum. Hvaða skoðun sem fólk hefur á þeim iðnaði þá er það hins vegar staðreynd að þeir sem hingað koma til þess að skoða okkar fallega land eru okkar gestir.

Flóttaleiðir þurfa að vera greiðfærar og ekki er nóg að fólk komist undir bert loft heldur þarf það að komast á öruggan hátt í öruggt umhverfi eftir að út er komið. Sé flóttaleiðin úr kjallara þarf fólk að komast upp, sé flóttaleiðin af annarri hæð eða ofar þarf að vera öruggur stigi með fallvörn þar sem ekki er hætta á að fólk falli til jarðar.

Um málaflokkinn eru lög og reglur í gildi og eftir þeim ber að fara en ekki er síður mikilvægt að við notum hyggjuvitið og hugsum „hvernig komast mínir gestir út á sem öruggastan hátt“.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu

 

Langflestir okkar gesta dvelja hér í einhverja daga og þurfa þar með á gistingu að halda. Því miður er þar víða pottur brotinn. Sem betur fer eru margir þeirra sem selja gistingu með allt sitt á hreinu, öll leyfi klár og þar með, með öryggi sinna gesta í fyrirrúmi en okkur berast þó allt of oft spurnir af því að ekki séu flóttamöguleikar fyrir fólk ef upp kemur eldur og jafnvel í sumum tilfellum eru ekki einu sinni reykskynjarar í dvalarrýmum gesta.

Ábyrgð þeirra er bjóða fólki gistingu er mikil, þeir bera ábyrgð á því að gestir þeirra bæði verði varir við hættu ef hún steðjar að og að þeir komist heilir og höldnu í öryggi.

Það að fólk komist á öruggan hátt út úr byggingum er ekki einskorðað við þá sem bjóða gistingu gegn gjaldi. Í þessu samhengi þarf hver og einn að huga að sínum heimagarði hvort sem er á heimilum eða stöðum þar sem fólk kemur saman til samveru eða skemmtana.

 

Notkun þokustúta og froðu

30.04.2020. Þokustútar og froða

Birgir Júlíus Sigursteinsson, slökkviliðsmaður hjá BÁ setti saman þetta flotta myndband um notkun þokustúta og froðu við slökkvistörf.

Þokustútar og froða – Brunavarnir Árnessýslu

Forsíða

Myndir

Um okkur

Gjaldskrá

Lög og reglugerðir

Fundargerðir

Bílaflotinn

Viðbrögð við jarðskjálfta

Almennar forvarnir

Eldvarnir í fjölbýli/sérbýli

Viðbrögð við vá

Gróðureldar

Skoðanaáætlun

Slökkvitækjaþjónusta

Nám slökkviliðsmanna

Nám hlutastarfandi

Nám eldvarnaeftirlit

Löggilding

Kennslugögn v/fornáms

Umsókn

Starfsmannafélag

Brunavarnir Árnessýslu
Árvegi 1. 800 Selfoss
Sími 4-800-900
ba@babubabu.is

Gróðureldar

Gróðureldar eru ekki ný fyrirbæri og hafa án efa logað á jörðinni löngu áður en maðurinn varð til í þeirri mynd sem hann er í dag. Í raun markar gróðureldur oft nýtt upphaf í náttúrunni þar sem það gamla eyðist og nýtt líf vex upp úr sverðinum og endurnýjun verður. Hringrás náttúrunnar heldur áfram. 

Þetta getur eðli málsins samkvæmt haft miklar neikvæðar afleiðingar fyrir dýralíf á viðkomandi svæði meðan ósköpin ganga yfir og auðvitað þess fólks sem á svæðinu býr. Bæði getur lífi þeirra verið ógnað sem og afkomu. 

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að þessar breytingar leiði til aukinna þurrka og hækkandi hitastigs hér á landi. Með þessum breytingum geta líkur á gróðureldum aukist til muna. 

Við Íslendingar höfum oft í flimtingum hversu lítið af trjágróðri sé á Íslandi saman ber leiðbeiningarnar sem við gefum erlendum ferðamönnum um hvað skal gera ef maður týnist í íslenskum skógi, sem sagt, maður stendur upp.

Hins vegar er ræktun trjágróðurs mikil á landinu okkar og með hlýnun verða aðstæður gróðrinum hagstæðari og því líklegt að aukning verði á trjávexti á komandi árum.  Lággróður á landinu er mikill í formi grass og mosa. Lággróðurinn er kjörin leið fyrir útbreiðslu elds yfir í hágróður. Einnig geta eldar í þurrum jarðvegi logað lengi og djúpt niður í jörðina langtímum saman. 

Í þurrkatíð verður allt þetta lífræna efni eldnærandi og getur eldur borist mjög hratt um lággróðurssvæði sem og hágróðursvæði. Mikilvægt er í skipulagningu gróðursvæða að huga að skiptingu svæða niður í brunahólf til þess að minnka líkur á því að eldur berist á milli hólfa. Þetta er hægt að gera með samsetningu lauftrjáa og barrtrjá auk þess sem mikilvægt er að aksturshæfir stígar og vegir séu settir á gróðursvæðið til þess að tryggja aðkomu björgunaraðila.

Sumarhúsaeigendur þurfa sérstaklega að huga að sínu nærumhverfi. Víða á Íslandi má sjá sumarhúsahverfi í þéttum skógum eða trjálundum þar sem tré og runnar vaxa alveg upp að sumarhúsum. Þetta eykur eðlilega til muna líkurnar á því að eldur berist í mannvirkin ef til gróðurelds kemur. Mikilvægt er að allavega einn og hálfur metri í kringum húsin séu alveg gróðurlaus og að minnsta kosti níu metra radíus í kringum húsin hafi ekki hágróður en ágætar leiðbeiningar og upplýsingar um þessi mál má finna á heimasíðunni grodureldar.is. 

Í þurrkatíð er heillavænlegt að halda gróðri safaspenntum í nærumhverfi bygginga með vökvun sé þess kostur. Það minnkar verulega líkur á því að eldur geti borist að húsum. Einnig er mikilvægt að tryggja aðkomu slökkviliðs og annarra björgunaraðila með því að gæta þess að vegir beri þung ökutæki og að trjágróður þrengi ekki að akstursleiðum. Dýrmætur tími björgunaraðila getur tapast ef byrja þarf á því að klippa greinar eða höggva niður tré til þess að björgunartæki komist leiðar sinnar.

Ekki er allsstaðar greiður aðgangur að vatni til slökkvistarfa á sumarhúsasvæðum en umtalsvert vatn þarf til slökkvistarfa í gróðureldum. Slökkvilið bera oft á tíðum talsvert vatn með sér í dælubílum og tankbílum en það má sín í raun lítils ef ekki næst að slökkva eldinn á upphafstigi.

Sumarhúsaeigendur og sumarhúsafélög geta gert ýmislegt til þess að tryggja að aukið slökkvivatn sé á þeirra svæði. Þar má nefna niðurgrafnar safnþrær, stíflur í skurðum og lækjum auk þess sem hægt er að safna vatni frá heitapottum í miðlægar safntanka. Að sjálfsögðu er best að gera þetta með vitneskju viðkomandi slökkviliðs, svo björgunaraðilar viti hvar vatnið er að finna og svo hægt sé að tryggja að tæki slökkviliðsins nái örugglega vatni úr viðkomandi vatnslind.

Hvað varðar flótta fólks frá sumarhúsasvæðum þar sem eldur hefur komið upp í gróðri er mikilvægt að minnsta kosti sé um tvær flóttaleiðir að ræða, helst úr gagnstæðum áttum. Eldur og reykur geta bæði hindrað og heft för fólks ef vindátt er þannig að flóttaleið lokast.

Það er afar mikilvægt að huga að sínu nærumhverfi með fyrirbyggjandi hætti til þess að lágmarka þá hættu sem að okkur og okkar nánustu getur steðjað. Það getur verið langt í næstu björgunaraðila ef illa fer og þegar eldur hefur náð sér á strik getur hann breiðst út með ógnar hraða. Við berum heilmikla ábyrgð sem einstaklingar á okkur og samborgurum okkar og þurfum því að gæta öryggis og haga okkar leik og störfum þannig að hvorki okkur né öðrum stafi hætta af. Lykillinn að öruggu nærumhverfi er góður undirbúningur og fyrirbyggjandi aðgerðir. Kvikni eldur í gróðri er nánast alltaf hægt að slökkva hann á auðveldan hátt í upphafi hafi maður til þess réttu áhöldin, en fái hann að dafna, þó ekki sé nema í örfáar mínútur getur voðinn verið vís.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu

 

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir