Að fyrirbyggja eldsvoða

Ef þú kynnir þér hvað getur valdið bruna og nýtir þér þá þekkingu getur þú minnkað hættu á eldsvoða til muna.
Eldavélin
- Þegar kviknar í út frá rafmagni þá er það oftast frá eldavélum. Yfirleitt er það vegna aðgæsluleysis. Bruni út frá eldavél verður sjaldnast vegna bilunar í eldavélinni sjálfri – þar þarf mannshöndin að koma nærri. Alltof mörg dæmi eru um eldsvoða vegna þess að pottur eða panna hefur verið skilin eftir á heitri hellu meðan athyglin beinist að öðru. Að svara í símann eitt andartak – sinna börnunum – kíkja á sjónvarpið – kann að virðast áhættulítið. Mikilvægt er að skilja aldrei við pott eða pönnu á heitri hellu né skilja steikina eftir í ofninum á meðan skroppið er út í búð.
- Eldsvoðar hafa orðið vegna þess að kveikt var á eldavél í ógáti og eitthvað, t.d. tuska eða pappír, hafði verið lagt á helluborðið.
- Þegar olía er notuð við matargerð, t.d. við djúpsteikingu eða kleinubakstur, verður að gæta þess að nota hæfilega mikið magn og að olían ofhitni ekki. Olían er orðin of heit þegar byrjar að rjúka úr henni og réttast að færa pottinn strax til.
- Auðveldlega má komast hjá flestum eldavélabrunum með því:
- Fara aldrei frá heitri hellu.
- Ekki hengja upp viskustykki, klúta eða annað eldfimt fyrir ofan eldavélina.
- Halda hreinu – feiti á helluborði eða í viftu er eldsmatur.
- Sýna varúð við djúpsteikingu – olían logar ef hún ofhitnar.
- Muna að eldhúsið er ekki leikvöllur – börn geta kveikt á hellu.
Loftun yfir eldavél
- Gakktu úr skugga um að viftan eða háfurinn virki almennilega og að síur séu í lagi til þess að eldfim fita safnist ekki upp í eldhúsinu.
Skynjarar og eldvarnarteppi við eldavél
- Hafðu reykskynjara við eldhúsið.
- Fáðu þér eldvarnarteppi og settu það upp á áberandi stað. Eldvarnarteppi sem geymt er ofan í skúffu eða inn í skáp getur gleymst í hita leiksins.
Þvottahús
- Helstu hættur í þvottahúsi eru í sambandi við þvottavél og þurrkara.
- Þrífa reglulega og hreinsa ló í og við þvottavélar og þurrkara, það þarf ekki mikið til þess að það kvikni í ló og öðrum óhreinindum sem safnast upp.
- Aldrei fara að heiman meðan þvottavélin eða þurrkarinn er í gangi. Það hefur kviknað í þessum tækjum meðan fólk hefur skroppið út í búð!
- Rafmagnstengingar skulu vera vel einangraðar og ekki þar sem þær geta blotnað og valdið neista.
- Til eru slökkvitæki sem hægt er að setja í þvottavélar og þurrkara rétt eins og túbu-sjónvörp og fást slík tæki í öllum helstu verslunum með eldvarnarbúnað.
Stofur
- Í stofum og sjónvarpsherbergjum höfum við marga hluti sem geta valdið íkveikju, t.d. sjónvörp, hljómflutningstæki, hleðslutæki fyrir farsíma og fartölvur og fleiri raftæki, kerti og arinn.
Önnur tæki
- Hleðsla ýmiskonar rafmagnstækja svo sem farsíma, fartölva og fl. ætti alls ekki að fara fram nema að degi til og einhver sé heima. Hlaða á þessi tæki á hörðu undirlægi og alls ekki á t.d. sófum teppum sængum og koddum. Fylgjast þarf með trosnun/skemmdum á snúrum þessara hleðslutækja og fá nýjar snúrur ef á þeim sér. Alls ekki að hlaða rafmagnsknúin hlaupahjól og rafmagnsknúin reiðhjól innan íbúða.
Arinn
- Gangið um arinn með nærgætni.
- Ekki hafa hluti nær en 1 metra frá arninum.
- Hreinsið arininn reglulega.
- Gangið úr skugga um að það sé örugglega slökkt í öllum glóðum áður en farið er að sofa eða húsnæði yfirgefið.
- Ekki þurrka föt á arninum, látið þau vera í að minnsta kosti. 1 metra frá honum.
- Ekki brenna hluti í arninum sem gefa frá sér mjög eitraðan reyk, s.s. plast- og gúmmíefni.
- Frágangur á arni þarf að vera í lagi svo hann geti ekki valdið íkveikju. Látið fagmenn sjá um uppsetningu.
Herbergi
- Í svefnherbergjum, sérstaklega í barna- og unglingaherbergjum geta verið hlutir sem valda íkveikju, t.d. tölvur, sjónvörp og hljómflutningstæki. Um þessa hluti gilda sömu atriði og fjallað er um varðandi stofur.
- Sjá til þess að ekkert sé í barnaherbergjum sem börn geta kveikt í með fikti eða óvitaskap. Lampar geta kveikt í ef dúkkuföt eða annað eldfimt er sett á þá.
- Gæta vel að börnum og því hvort þau séu að gera eitthvað sem valdið getur íkveikju.
Bílskúr
- Bílskúrar eru oft miðstöð hættulegra efna og hluta sem geta valdið íkveikju.
- Hleðsla á rafmagnsknúnum hlaupahjólum og rafmagnsknúnum reiðhjólum er best komin utandyra.
- Ekki vera með marga gaskúta – þeir eru hættulegir ef kviknar í.
- Hafa skal þynni og önnur eldfim efni í vel lokuðum umbúðum og halda þeim frá miklum hita og ljósi.
- Eftir vinnu með verkfæri sem gefa frá sér neista, eins og slípirokk eða rafsuðu, gæta þess að ekki sé glóð í tuskum sem gæti svo valdið íkveikju.
- Ganga vel frá öllum hlutum því röð, regla og snyrtimennska minnkar hættu á íkveikju.
Sorp
- Sorptunnur á ekki að staðsetja of nærri brennanlegum útveggjum, og ekki undir gluggum bygginga, það er að minnsta kosti þremur metrum frá timburvegg og tveimur metrum frá járnklæddum timburvegg. Best er að byggja sorpgeymslu úr óbrennanlegum efnum. Slík geymsla getur staðið upp við timburbyggingu. Geymslan þarf að vera læst.
- Ef sorpgeymsla er innbyggð skulu veggir hennar vera að minnsta kosti EI60. Ekki á að vera innangengt í sorpgeymslu heldur skal aðkoma að henni vera utanfrá, dyr að þeim eiga að vera læstar.
Milli íbúðar og bílskúrs
- Veggir á milli íbúðar og bílskúrs eiga að vera að minnsta kosti EI60 og eiga að ná upp í þak.
- Hurð á milli íbúðar og bílskúrs á að vera að minnsta kosti EI-SC30, það eru hurðir sem þola að minnsta kosti þrjátíu mínútna brunaálag. Þær eru reykþéttar og sjálflokandi. Hurðin má ekki opnast beint inn í íbúðina, heldur inn í forstofu eða sambærilegt lokanlegt rými.
- Ef geymslukjallari er undir húsinu þurfa veggir að hafa að minnsta kosti 60 mínútna brunaþol og hurð þyrfti að vera minnst EICS30.
- Ef göt eru á milli brunahólfa, til dæmis á milli íbúðar og bílskúrs þarf að þétta þau með viðurkenndum efnum það er að segja steinull og múr eða steinull og eldvarnaefnum.
- Blikkrör í þakrými þarf að einangra með netull og vefja hana með tveggja millimetra vír.
Rafmagnstaflan
- Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Um hana fer allt rafmagn sem notað er á heimilinu. Öryggin í rafmagnstöflunni eiga að varna því að of mikið álag eða skammhlaup valdi tjóni. Í eldri töflum eru bræðivör sem skipta þarf um þegar þau springa en í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag. Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar inni í skápum þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilfellum er brýnt að láta löggiltan rafverktaka kanna ástand rafmagnstaflna og gera úrbætur áður en skaðinn er skeður.
- Í öllum rafmagnstöflum skulu vera skýrar og læsilegar merkingar sem sýna meðal annars hvaða öryggi og hversu sterk eru fyrir hvern húshluta.
Lekastraumsrofinn
- Eitt helsta öryggistæki rafkerfisins er lekastraumsrofinn. Ef útleiðsla verður í raflögn, t.d. vegna bilunar í jarðtengdu tæki, á rofinn að slá út og rjúfa allan straum. Lekastraumsrofi kemur ekki að tilætluðum notum nema raflögnin sé jarðtengd og kanna þarf reglulega hvort hann virki með því að ýta á prófhnappinn.
Innstungur (tenglar)
- Innstungur (tenglar) ættu að vera sem víðast í hverri íbúð, helst fleiri en ein í hverju herbergi. Innstungur þurfa að vera vel festar og tengiklær eiga að sitja tryggilega í þeim því að sambandsleysi getur valdið hita. Áríðandi er að skipta strax um brotin lok á innstungum til að varna því að heimilisfólk eða gestir komist í snertingu við rafmagn.
- Hægt er að fá innstungur með barnavörn og ýmsan annan búnað til að varna því að óvitar stingi hlutum í þær og skaði sig.
Snúrur og klær
- Snúrur flytja rafmagnið frá innstungunum í raftækin.
- Stundum þarf að nota fjöltengi. Ekki er gott að hafa mörg orkufrek raftæki tengd í eitt og sama fjöltengið. Ekki skal setja meira en 2000W á hvern 10Ampera tengil.
- Varasamt að flytja rafmagn langar leiðir með grönnum, ójarðtengdum framlengingarleiðslum.
- Rafbúnaður skal vera heill og óskemmdur. Brotnar klær og leiðslur með skemmdri einangrun bjóða hættunni heim.
- Raftæki sem eiga að vera jarðtengd skulu tengd í jarðtengdar innstungur. Passa skal að nota ekki gömul og slitin fjöltengi. Þetta á ekki síst við um tölvur og ýmsan tölvubúnað.
Ljósarofar
- Á hverjum degi notum við ljósarofa til þess að kveikja og slökkva ljósin. Oft þarf að þreifa eftir rofum í myrkri. Þess vegna er afar brýnt að þeir séu vel festir, heilir og óbrotnir þannig að sem minnst hætta sé á að notandinn fái straum úr þeim.
- Rofar slitna með tímanum og sambandsleysi í þeim getur bæði verið óþægilegt og varhugavert.
- Nauðsynlegt er að fá löggiltan rafverktaka til að yfirfara rofa ef vart verður sambandsleysis eða þeir hitna mikið.
Ljós og önnur raftæki
- Oft má ráða af ljósum og öðrum raftækjum hvort eitthvað er athugavert við rafkerfið. Ef skipta þarf oftar um perur í einu ljósastæði en öðru getur það m.a. bent til bilunar. Mikilvægt er að taka mark á slíkum fyrirboðum og láta löggiltan rafverktaka kanna hvað býr að baki.
- Röng stærð eða gerð af peru getur orsakað bruna vegna þess hita sem myndast í ljósastæðinu. Til að mynda er varasamt að nota spegilperur í ljósastæði sem ekki eru sérstaklega gerð fyrir slíkar perur.
Kerti og kertastjakar
- Gætið þess að kerti séu vel föst í kertastjakanum.
- Ekki setja kerti ofan í hvað sem er – falleg glös geta hitnað og sprungið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef kerti eru sett ofan í það. Kertastjakar verða að vera úr óbrennanlegu efni sem leiðir ekki hita og vera stöðugir.
- Kertakveikur á ekki að vera lengri en 1 cm. Klippið af kveiknum svo ekki sé hætta á að logandi kveikur detti af og brenni út frá sér.
- Gætið vel að staðsetningu kerta.
- Staðsetjið ekki kerti þar sem kettir eða hundar geta hlaupið þau um
- Setjið kerti aldrei nálægt tækjum sem gefa frá sér hita s.s. sjónvarpi. Hiti frá tæki veldur aukinni hættu á óhappi.
- Hafið ekki mishá kerti of nálægt hvert öðru. Hiti frá lægra kerti getur brætt hærra kertið. Hafið hæfilegt bil á milli kerta, almenn viðmiðun er að hafa a.m.k. 10 cm bil á milli kerta.
- Ekki setja kerti fyrir opnum glugga þar sem vindur getur sveiflað gluggatjöldum í kertalogann.
- Vindsveipur eða gegnumtrekkur getur kveikt eld á ný á kerti sem hefur verið slökkt, forðist því að hafa kerti í dragsúgi.
- Látið kerti aldrei loga innanhúss án eftirlits, hvorki á heimilum, fundarherbergjum eða á kaffistofu vinnustaðar og yfirgefið því aldrei vistarveru þar sem kertaljós logar.
- Útikerti eru oft staðsett þannig að hætta er á að yngsta kynslóðin rekist í þau og að yfirhafnir fullorðinna, sérstaklega kápur og frakkar, sláist í loga þeirra.
- Ef vatn kemst í vax útikerta er hætta á að heitt vaxið skvettist á fætur og hendur nálægra.
- Æskilegt er að setja reglur um notkun kerta og kertaskreytinga á heimilum og vinnustöðum og að þær séu öllum heimilismönnum og starfsmönnum vel kynntar.
Að slökkva á kerti
- Best er að slökkva á kerti með því að nota kertaslökkvara. Þó eru til dæmi þess að áfram hafi rokið úr kveik kerta lengi eftir að loginn var kæfður. Reykurinn er í sjálfu sér skaðlaus en fyllsta ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar slökkt er á kerti.
- Til þess að öruggt sé að eldur lifi ekki lengur í kertakveik og vistarverur fyllist ekki af reyk, geta menn slökkt með kertaslökkvara og síðan lagt blautan fingur utan um kertakveikinn.
- Aldrei má hella vatni á kerti, sérstaklega ekki útikerti.
- Treystið því aldrei að sjálfslökkvandi kerti slökkvi á sér sjálf.
Kertaskreytingar
- Kertaskreytingar eru vinsælar en einnig afar eldfimar. Hafið kertaskreytingar ætíð á óbrennanlegu og stöðugu undirlagi, t.d. úr gleri eða málmi og gætið að því að kertaloginn nái undir engum kringumstæðum til skreytingarinnar.
- Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka. Oftast eru upplýsingar um brennslutíma á umbúðum kertanna sem gagnlegt er að kynna sér.
- Á markaðnum eru einnig fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar þannig að minni hætta er á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytinguna. Aldrei má þó treysta að slík efni komi í veg fyrir bruna.
- Margir kjósa að föndra eigin skreytingar eða jafnvel bara skreyta kerti ein og sér. Nokkuð hefur færst í vöxt að líma servéttur sem skraut utan á kerti. Ekki er mælt með slíku skrauti sökum eldhættu. Dæmi eru um að kviknað hafi í kertum sem eru með áföstu skrauti s.s. vanillustöngum, barri eða berjum þegar vaxið hefur bráðnað og logi kertisins náð í skrautið.
- Gætið að því að skraut s.s. borðar eða greinar séu aldrei of nærri kertaloganum.