Flóttaáætlun

Flóttaáætlun krefst:
- Reykskynjara
- Flóttaáætlunar sem teiknuð er á blað
- Fjölskylduumræðna
- Æfinga
- Tryggðu að flóttaleiðir séu ávallt greiðfærar, t.d.,
- Hvernig á að komast úr svefnherbergi á örfáum sekúndum
- Eru hurðir rýmingarleiða opnanlegar innanfrá án lykils (t.d. snerill á útihurð)
- Er greiður aðgangur að svalahurðum. Er snjór að safnist upp við hurðina? Svalalokanir eru háðar samþykki byggingafulltrúa
Ræðið eftirfarandi við fjölskylduna
- Sofið með svefnherbergisdyrnar lokaðar. Það heldur aftur af hinum eitraða reyk
- Reykskynjarinn mun væla og vekja fjölskylduna
- Athugið dyrnar. Ef þær eru heitar notið þá hina flóttaleiðina. Séu þær kaldar, verið viðbúin að loka aftur ef reykur eða hiti sækir inn
- Skríðið í reykfylltu herbergi, verið fljót út
- Farið á fyrirfram valinn mótsstað svo þið getið athugað hvort öll fjölskyldan sé óhult
- Farið ekki aftur inn í eld eða reyk. Verið viss um að aðrir fari heldur ekki inn. Fjöldi fólks hefur látist við að reyna slíkt
- Hringið í 112 og tilkynnið um eldinn, staðsetningu, götuheiti og númer
Kennið börnum að umgangast kertaljós og eldfæri
Fyrir börn hefur kertaljós sérstakt aðdráttarafl. Brýnið fyrir börnum að fara ætíð varlega með eld og gætið þess að börn leiki sér ekki án umsjónar nálægt logandi kertum. Eldspýtur og kveikjarar eru ekki barna meðfæri. Staðsetjið kveikjara og eldspýtur ávallt þar sem börn ná ekki til. Til eru kveikjarar með barnalæsingum sem eiga að koma í veg fyrir að börn geti kveikt á þeim.
Fræddu börnin
Hvernig á að ræða eldvarnir við börn? Fyrir það fyrsta á aldrei að hræða börnin með eldinum. Útskýrið á rólegan hátt hvað eldurinn getur gert og leyfið þeim jafnvel finna hitann af logandi eldspýtu eða kerti með því að koma með hendi þeirra nálægt loganum. Virkið börnin til að verða eldvarnafulltrúi á heimilinu. Þannig geta þau t.d. minnt á að það þurfi að slökkva á kerti ef farið er út úr íbúðinni. Fáið börnin til að segja ykkur frá ef þau finna einhvers staðar eldspýtur eða kveikjara. Útskýrið fyrir þeim gagnsemi reykskynjarans og leyfið þeim að heyra hljóðið í honum. Notið t.d. afmælisdag barnsins til að skipta um rafhlöðu í honum. Útskýrið hvað reykurinn og hitinn geta gert okkur og að alltaf eigi að velta sér fram úr rúminu en ekki standa upp. Aldrei megi fela sig undir rúmum né inn í skápum. Alltaf eigi að þreifa hurðir áður en þær séu opnaðar og hvernig neyðaráætlun fjölskyldunnar virkar. Æfið hvernig yfirgefa á íbúðina með börnunum þannig að öllum sé ljóst hvað á að gera. Með því að tala persónulega við barn þitt um eldinn, hætturnar af honum og hvernig best sé að bregðast við, undirbýrðu það fyrir lífið og getur frekar búist við að barnið bregðist rétt við, ef það sér eldspýtur á glámbekk eða ef það kviknar í.
Ef kviknar í fötum
Nota eldvarnateppi, láta viðkomandi leggjast, strjúka niður með teppinu til að kæfa eldinn.
Reglubundnar brunaæfingar á heimilinu
- Allir eiga að vera í sínu herbergi með hurðir lokaðar
- Einn á heimilinu gefur brunamerki með því að kalla ELDUR! ELDUR!
- Hver og einn athugi herbergisdyr sínar
- Látið sem dyrnar séu heitar. Notið þá hina flóttaleiðina
- Allir mæti á fyrirfram ákveðinn stað utandyra, einn látinn “kalla til” slökkviliðið