Reyk- og gasskynjarar

Brunavarnir Árnessýslu

Skynjarar

Reykskynjarar eru ein ódýrasta líftrygging sem hægt er að fá og ættu þeir að vera á hverju heimili. Hér eru nokkrar upplýsingar um reykskynjara og hvernig best er að velja þá.

Jónískir (Sá sem þefar-Jón með stóra nefið)

Jónískur reykskynjari nemurbest heitan reyk, t.d. eld í pappír, vefnaði, timbri, feitispotti eða þar sem eldur er sjáanlegur. Hann hentar vel í herbergi þar sem ekki er mikið um rafmagnstæki. Hann hentar illa nálægt eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi vegna mögulegra falsboða. Dæmi um falsboð er t.d. vegna brauðristar, steikingar á pönnu og gufu frá þvottahúsi og baði. Segja má að hann sé eins og nefið á mönnum, hann finni lykt!

Optískir (Sá sem sér-obbi með ofursjónina

Optískur skynjari nemurbest kaldan og sýnilegan reyk sem myndast þegar rafmagnstæki og raflagnir brenna. Einnig skynjar hann vel hægan bruna, s.s. þegar sígarettuglóð hefur fallið ofan í sófa. Optískur skynjari hentar því vel þar sem mikið er um rafmagnstæki eins og í stofum, sjónvarpsherbergjum og barnaherbergjum. Einnig hentar hann vel í opin rými og við eldhús og þvottahús. Segja má að hann sé eins og augu manna, hann sjái agnir.

Gasskynjarar

Própangas er að finna víða á heimilum, í sumarhúsum, hjólhýsum og fellihýsum. Ef própangas losnar úr læðingi getur lítill neisti valdið sprengingu. Því eru gasskynjarar nauðsynlegur hluti af öryggisbúnaði heimilisins. Til eru bæði gasskynjarar drifnir rafhlöðu, húsarafmagni og 12 volta rafmagni. Gasskynjarinn skynjar strax gaslekann ef hann er rétt staðsettur. Própangas er þyngra en loft og leitar þess vegna niður. Best er að staðsetja skynjarann u.þ.b. 30 cm fyrir ofan gólfflöt.

Samtengjanlegir

Bæði jónískir og optískir skynjarar og fleiri tegundir fást samtengjanlegir. Þetta er þráðlaus tenging og virkar þannig að ef einn skynjari fer í gang sendir hann boð í hina sem fara þá í gang. Þessir skynjarar henta vel í hús sem eru á fleiri en einni hæð t.d. ef þvottahús er í kjallara og það kviknar í sendir reykskynjarinn þar boð í skynjarann á fyrstu hæð og hann fer í gang. Þetta tryggir að þú heyrir örugglega í skynjaranum.

Hvar og hvernig

Hvernig reyksskynjara á að hafa og hvar eiga þeir að vera? Híbýli manna eru mismunandi og því verður að meta hvert húsnæði með tilliti til stærðar og gerðar. Hér eru nokkur atriði sem ættu að hjálpa þér við val og staðsetningu.

Hve marga?

Á nútíma heimili ætti að vera einn reykskynjari í hverju herbergi. Sérstaklega á þetta við um barnaherbergi þar sem tölva, sjónvarp og hljómflutningstæki eru til staðar. Einnig þarf reykskynjara í stofuna, við eldhúsið, við þvottahúsið, á ganga og í bílskúrinn. Ef hús er á mörgum hæðum þurfa reykskynjarar að vera á hverri hæð.

Hvernig?

Til þess að velja rétta tegund getum við haft til hliðsjónar umfjöllunina um jóníska og optíska reykskynjarann:

 • Stofan: Ef sjónvarp og önnur rafmagnstæki eru í stofunni ætti að vera optískur skynjari.
 • Eldhúsið: Ekki skal setja skynjarann inn í eldhúsið heldur við það. Optískur verður þar fyrir valinu því minni hætta er á falsboðum frá honum.
 • Svefnherbergi: Ef raftæki eins og sjónvarp, hljómflutningstæki og tölva eru í herberginu, ætti að vera optískur skynjari þar, en annars jónískur.
 • Opin rými: Í ganga og stigaop eru jónískir reykskynjarar æskilegir.
 • Þvottahúsið: Í þvottahúsið setjum við optískan skynjara því jónískur er vís með að vera með falsboð vegna gufu. Ef optíski skynjarinn er inni í þvottahúsinu og fer oft í gang vegna gufu, skaltu prófa að færa hann og setja hann við þvottahúsið.
 • Bílskúrinn: Í bílskúrnum ætti að vera optískur skynjari, en ef mikið er unnið í bílskúrnum við smíðar, rafsuðu og þess háttar, ætti þar að vera hitaskynjari (þarf að útskýra?).Best er ef skynjarinn í bílskúrnum er tengdur við annan inni í íbúðinni.

 

Staðsetning reykskynjara

Staðsettu reykskynjarana eftir leiðbeiningum framleiðendanna (má ekki sleppa þessu? Er ekki verið að setja upp leiðbeiningar hér?). Staðsettu reykskynjarana ávallt eins hátt uppi eins og hægt er vegna þess að reykur stígur upp. Staðsetjið þó aldrei reykskynjarana í kverkinni milli lofts og veggjar, vegna þess að. u.þ.b. 25 cm svæði niður á vegginn eða út á loftið er oft á tíðum reyklaust. Forðist að setja reykskynjara á það svæði. Í risi eða á hallandi lofti skal staðsetja skynjarana eins ofarlega og hægt er. Í opnum stigagöngum þar sem hvorki eru hurðir niðri eða uppi, skal staðsetja reykskynjara á hverjum þeim stað þar sem má ætla að reykur nái að stöðvast á leið sinni upp stigaganginn. Þar sem hurð er efst í kjallarastiga, er best að staðsetja reykskynjarann neðst við stigann, þar sem dautt loft getur verið til staðar efst í stiganum við dyrnar og hindrað að reykur nái þangað fyrr en seint og um síðir. Staðsetjið reykskynjara ekki nálægt gluggum, hurðum eða á öðrum þeim stöðum þar sem dragsúgur getur hindrað starfsemi þeirra.

Viðhald og eftirlit

Fjórðungur reykskynjara virkar því miður ekki vegna þess að einhver bilun er í þeim eða að í þá vantar rafhlöðuna. Hafðu fyrir reglu að prófa reykskynjarana þína einu sinni í mánuði. Settu nýja rafhlöðu í reykskynjarann a.m.k. einu sinni á ári. Ef reykskynjarinn gefur frá sér stutt hljóð á u.þ.b. 1/2 mínútu fresti, skaltu skipta um rafhlöðu strax, því það er merki um að rafhlaðan sé að verða tóm. Ryk og önnur óhreinindi geta gert reykskynjarann ónæman fyrir reyk, en einnig ofurnæman. Hreinsaðu hann því reglulega, t.d. með því að ryksuga hann og/eða blása úr honum ryk. Málaðu aldrei reykskynjarann, málning getur varnað því að reykur komist inn í hann. Við prófanir á skynjaranum er þrýst á prófunarhnapp hans og honum haldið inni í nokkrar sekúndur. Einnig er gott að láta reyk (kveikja í blaðbút í öskubakka undir honum) liðast að honum. Hann þagnar þegar reyknum er blásið burtu.

Fölsk boð

Reykskynjarar geta stundum gefið fölsk boð, þá oftast vegna gufu frá baðherbergi eða lyktar úr eldhúsi. Ef þetta gerist oft skaltu prófa að færa reykskynjarann til um nokkra cm. frá eldhúsinu eða baðherberginu. Þrífðu reykskynjarann reglulega. Dugi það ekki, skiptu þá um reykskynjara eða fáðu þér reykskynjara með „seinkunarhnapp” sem þaggar niður í skynjaranum í ákveðinn tíma, t.d. 3 mínútur en gerir hann síðan fullvirkan aftur.

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

 • Kynning (efni í smíðum)
 • Tilgangur (efni í smíðum)
 • Lög og reglugerðir
 • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

 • Slökkvitæki (efni í smíðum)
 • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir