Gróðureldar eru ekki ný fyrirbæri og hafa án efa logað á jörðinni löngu áður en maðurinn varð til í þeirri mynd sem hann er í dag. Í raun markar gróðureldur oft nýtt upphaf í náttúrunni þar sem það gamla eyðist og nýtt líf vex upp úr sverðinum og endurnýjun verður. Hringrás náttúrunnar heldur áfram. 

Þetta getur eðli málsins samkvæmt haft miklar neikvæðar afleiðingar fyrir dýralíf á viðkomandi svæði meðan ósköpin ganga yfir og auðvitað þess fólks sem á svæðinu býr. Bæði getur lífi þeirra verið ógnað sem og afkomu. 

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að þessar breytingar leiði til aukinna þurrka og hækkandi hitastigs hér á landi. Með þessum breytingum geta líkur á gróðureldum aukist til muna. 

Við Íslendingar höfum oft í flimtingum hversu lítið af trjágróðri sé á Íslandi saman ber leiðbeiningarnar sem við gefum erlendum ferðamönnum um hvað skal gera ef maður týnist í íslenskum skógi, sem sagt, maður stendur upp.

Hins vegar er ræktun trjágróðurs mikil á landinu okkar og með hlýnun verða aðstæður gróðrinum hagstæðari og því líklegt að aukning verði á trjávexti á komandi árum.  Lággróður á landinu er mikill í formi grass og mosa. Lággróðurinn er kjörin leið fyrir útbreiðslu elds yfir í hágróður. Einnig geta eldar í þurrum jarðvegi logað lengi og djúpt niður í jörðina langtímum saman. 

Í þurrkatíð verður allt þetta lífræna efni eldnærandi og getur eldur borist mjög hratt um lággróðurssvæði sem og hágróðursvæði. Mikilvægt er í skipulagningu gróðursvæða að huga að skiptingu svæða niður í brunahólf til þess að minnka líkur á því að eldur berist á milli hólfa. Þetta er hægt að gera með samsetningu lauftrjáa og barrtrjá auk þess sem mikilvægt er að aksturshæfir stígar og vegir séu settir á gróðursvæðið til þess að tryggja aðkomu björgunaraðila.

Sumarhúsaeigendur þurfa sérstaklega að huga að sínu nærumhverfi. Víða á Íslandi má sjá sumarhúsahverfi í þéttum skógum eða trjálundum þar sem tré og runnar vaxa alveg upp að sumarhúsum. Þetta eykur eðlilega til muna líkurnar á því að eldur berist í mannvirkin ef til gróðurelds kemur. Mikilvægt er að allavega einn og hálfur metri í kringum húsin séu alveg gróðurlaus og að minnsta kosti níu metra radíus í kringum húsin hafi ekki hágróður en ágætar leiðbeiningar og upplýsingar um þessi mál má finna á heimasíðunni grodureldar.is. 

Í þurrkatíð er heillavænlegt að halda gróðri safaspenntum í nærumhverfi bygginga með vökvun sé þess kostur. Það minnkar verulega líkur á því að eldur geti borist að húsum. Einnig er mikilvægt að tryggja aðkomu slökkviliðs og annarra björgunaraðila með því að gæta þess að vegir beri þung ökutæki og að trjágróður þrengi ekki að akstursleiðum. Dýrmætur tími björgunaraðila getur tapast ef byrja þarf á því að klippa greinar eða höggva niður tré til þess að björgunartæki komist leiðar sinnar.

Ekki er allsstaðar greiður aðgangur að vatni til slökkvistarfa á sumarhúsasvæðum en umtalsvert vatn þarf til slökkvistarfa í gróðureldum. Slökkvilið bera oft á tíðum talsvert vatn með sér í dælubílum og tankbílum en það má sín í raun lítils ef ekki næst að slökkva eldinn á upphafstigi.

Sumarhúsaeigendur og sumarhúsafélög geta gert ýmislegt til þess að tryggja að aukið slökkvivatn sé á þeirra svæði. Þar má nefna niðurgrafnar safnþrær, stíflur í skurðum og lækjum auk þess sem hægt er að safna vatni frá heitapottum í miðlægar safntanka. Að sjálfsögðu er best að gera þetta með vitneskju viðkomandi slökkviliðs, svo björgunaraðilar viti hvar vatnið er að finna og svo hægt sé að tryggja að tæki slökkviliðsins nái örugglega vatni úr viðkomandi vatnslind.

Hvað varðar flótta fólks frá sumarhúsasvæðum þar sem eldur hefur komið upp í gróðri er mikilvægt að minnsta kosti sé um tvær flóttaleiðir að ræða, helst úr gagnstæðum áttum. Eldur og reykur geta bæði hindrað og heft för fólks ef vindátt er þannig að flóttaleið lokast.

Það er afar mikilvægt að huga að sínu nærumhverfi með fyrirbyggjandi hætti til þess að lágmarka þá hættu sem að okkur og okkar nánustu getur steðjað. Það getur verið langt í næstu björgunaraðila ef illa fer og þegar eldur hefur náð sér á strik getur hann breiðst út með ógnar hraða. Við berum heilmikla ábyrgð sem einstaklingar á okkur og samborgurum okkar og þurfum því að gæta öryggis og haga okkar leik og störfum þannig að hvorki okkur né öðrum stafi hætta af. Lykillinn að öruggu nærumhverfi er góður undirbúningur og fyrirbyggjandi aðgerðir. Kvikni eldur í gróðri er nánast alltaf hægt að slökkva hann á auðveldan hátt í upphafi hafi maður til þess réttu áhöldin, en fái hann að dafna, þó ekki sé nema í örfáar mínútur getur voðinn verið vís.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu

 

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir