Bálkestir og brennur
Nú líður að verslunarmannahelginni og huga margir á skemmtilegar samverustundir með sínum nánustu í nátúrunni á þessum tíma. Tekið er að rökkva á kvöldin og er því eðlilegt að álykta sem svo að varðeldagenið í íslendingnum geri vart við sig. Þá er mikilvægt að fara að öllu með gát.
Árið 2015 komu út ný lög nr. 40 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og í kjölfarið var gefin út reglugerð árið 2016 nr. 325 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.
Ekki þarf lengur sérstakt leyfi sýslumanns til þess að brenna bálköst sem er undir einum rúmmetra að stærð og logar ekki lengur en eina klukkustund samkvæmt 18.gr reglugerðarinnar. Slíkur bálköstur flokkast sem lítil brenna og er fjallað um hann í 19 grein reglugerðarinnar.
Gæta þarf þess að litlar brennur séu ekki nær íbúabyggð en 100 metra og hún skal þannig staðsett að ekki sé hætta á að eldur geti breiðst út. Bálköstinn skal staðsetja þannig að aðgangur sé að nægu slökkvivatni komi þær aðstæður til þess að grípa þurfi til þess.
Nokkrir punktar:
Sá sem ber ábyrgð á bálkestinum þarf að vera á staðnum allan tíman meðan bálkösturinn brennur (23.gr reglugerðar).
Gæta skal ítrustu varkárni við alla meðferð opins elds og ekki skilja við hann óvaktaðan (3.gr reglugerðar).
Óheimilt er að senda á loft logandi kertaluktir (5.gr reglugerðar).
Óheimilt er að kveikja eld í bálkesti að nóttu til frá klukkan 23:00 til 06:00 (19.gr reglugerðar).
Ekki skal kveikja í bálkesti ef meðalvindur er meiri en 10 metrar á sekúndu eða ef vindátt er óhagstæð á brennustað (8.gr reglugerðar).
Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs (4.gr reglugerðar).
Samkvæmt 9. grein laga nr.40 2015 um bótaábyrgð, mun sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé, bera fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst og er jafnframt heimilt að innheimta kostnað við útkall slökkviliðs hjá þeim sem tjóninu veldur með saknæmum hætti.
Samkvæmt 18. grein reglugerðarinnar er óheimilt að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en einn rúmmetra af efni.
Með von um farsæla verslunarmannahelgi