Skyldur

Eldvarnaeftirlit og forvarnir er eitt af lögbundnum verkefnum slökkviliða. Brunavarnir Árnessýslu halda úti öflugu eldvarnaeftirliti þar sem leitast er við að uppfylla þær lagalegu skyldur sem lagðar eru á herðar slökkviliða hvað skoðunar og forvarnastarf varðar. Eldvarnareftirlit skal haft með mannvirkjum, lóðum og starfsemi þar sem eldhætta getur skapast og ógnað lífi, heilsu, umhverfi og eignum.  

Starfsemin er tvennskonar: 

    1. Eldvarnaeftirlit og skoðanir. 
    2. Upplýsingar og fræðsla.

Umfang

Eldvarnaeftirlitsstarfið er umfangsmikið. Um er að ræða stórt svæði og miklar vegalengdir, og fjölda skoðunarskyldra bygginga s.s. virkjana, gistinga, samfélagslega mikilvægra stofnana og öflugra iðnfyrirtækja. Þá er á starfssvæðinu mikil almenn uppbygging, bæði í þéttbýli og dreifbýli, sem kallar á mikla vinnu eldvarnaeftirlitsmanna við yfirferð teikninga af nýbyggingum á svæðinu með tilheyrandi öryggis og lokaúttektum og lögbundnum úttektum vegna leyfisveitinga á ýmiskonar starfsemi. Mat á áhættum á starfssvæðinu sýnir að lágmarksfjöldi stöðugilda í eldvarnareftirliti eru fjórar.

Árlegar skoðanir fjórða hvert ár

 Slökkviliðsstjóri gefur út eftirlitsáætlun ársins fyrir 1. febrúar hvert ár. Þar er gert grein fyrir hvaða mannvirki, lóðir og starfsemi í sveitarfélaginu munu sæta eldvarnareftirliti það árið. Áætlunin skal birt hér á vefsíðu BÁ og skilað til HMS í gegnum Brunagátt. Samantekt um framkvæmd eldvarnareftirlits að ári liðnu er einnig skilað til HMS í gegnum sömu gátt. Þá er einnig mannvirki sem eru skoðuð fjórða hvert ár.

Skipulag

Slökkvistjóri gætir þess að nægjanlegur hluti af heildarframlagi til slökkviliðsins sé nýttur til forvarna og eftirlitsstarfa. Fagleg og rekstrarleg ábyrgð forvarna er á höndum slökkviliðsstjóra. Dagleg umsjón forvarna heyrir undir deildarstjóra forvarnasviðs. Deildarstjóri forvarnasviðs og þrír eldvarnaeftirlitsmenn sinna verkefnum forvarnasviðs BÁ. 

Helstu verkefni

Helstu verkefni eldvarnaeftirlitsins eru

      • Ráðgjöf til hönnuða og húseigenda. 
      • Yfirferð teikninga og umsagnir vegna þeirra að beiðni byggingafulltrúa og/eða hönnuða í tengslum við útgáfu byggingaleyfa.
      • Yfirferð/umsagnir skipulagsuppdrátta og greinagerða  til skipulagsfulltrúa í gegnum skipulagsgátt
      • Úttekt á skoðunarskyldum stöðum, skv. reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit nr. 723/2017.
      • Umsagnir vegna veitinga- og gististaða. 
      • Umsagnir til sýslumanns, lögreglustjóra, félagsmálayfirvalda ofl. vegna annarra leyfa
      • Sérstakt eftirlit með mannmörgum stöðum, t.d. veitinga- og samkomuhúsum. 
      • Fræðsla fyrir almenning um eldvarnir.
      • Fræðsla í skólum og heilbrigðisstofnunum um eldvarnir. 
      • Utanumhald um eigið eldvarna eftirlit.

Þá situr fulltrúi slökkviliðsins fundi skipulags- og byggingarnefnda og tekur þátt í öryggis/lokaúttektum á öllu nýju húsnæði í öllum notkunarflokkum.

Lög og reglugerðir

Hafa samband við eldvarnaeftirlitið

Fjölmargir þurfa að hafa samband við eldvarnaeftirlitið. Þar má nefna hönnuðir, fyrirtæki, dagforeldrar, og  þeir sem þurfa að fá leyfisveitingar fyrir samkomum og gistingum. Hafa skal beint samband við eldvarnaeftirlið BÁ með því að senda tölvupóst á netfangið eftirlit@babubabu.is. Öll önnur erindi skulu berast til ba@babubabu.is