Gróðureldar

Forvarnir og fyrstu viðbrögð

Gróðureldar

Fyrstu viðbrögð

Fyrstu viðbrögð við gróðureldi eru að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum. Hafðu í huga að aðstoð má alltaf afturkalla ef aðstæður breytast. Láttu fólk í nágrenninu sem kynni að vera í hættu vita af eldinum strax. Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa án þess að taka áhættu, hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi. Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir. Reykur frá gróðureldum í of miklu magni getur verið lífshættulegur. Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk. Sé ekki ráðið við eldinn, t.d. vegna hvassviðris, skal gera ráðstafanir og mynda eldvarnarlínu í nægilegri fjarlægð undan vindi, til dæmis með því að bleyta í gróðri eða ryðja honum í burtu.

Hringdu í 112

HRINGDU Í 112

Hringdu í 112 og gefðu upp staðsetningu eldsins. Eldurinn getur magnast upp á örskotsstund.

Láttu aðra vita

LÁTTU AÐRA VITA

Gerðu öðrum í nágrenninu viðvart.

Rétt viðbrögð

RÉTT VIÐBRÖGÐ

Rétt viðbrögð í upphafi geta breytt miklu. Reykur getur verið hættulegur. Hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi.

Flóttaáætlun

Gerðu áætlun um hvert þú getur flúið ef eldur kemur upp. Í hvassviðri og þurrki ­getur eldur borist hratt yfir í gróðri og lokað flóttaleiðum. Kynntu þér hvaða leiðir eru færar út af því svæði sem þú ert á og hvar öruggari svæði er að finna. Athugaðu að vindátt getur stýrt því hvaða leið er valin. Hafa í huga að vara alla á svæðinu við ef vart verður um eld og hafa tölu á þeim sem þú tekur með þér. Hrópaðu ELDUR. Hafðu tiltækan neyðarbúnað sem hentar fyrir þínar aðstæður.

Flóttaáætlun

LEIÐIR

Kynntu þér leiðir fyrir akandi og fótgangandi af svæðinu.

Safnast saman

SAFNAST SAMAN

Ákveddu hvar skal safnast saman ef neyðarástand skapast.

Rétt viðbrögð

STRAUM OG FALLVÖTN

Kynntu þér læki og vötn eða gróðursnauð svæði í nágrenninu.

Leiðir til að minnka eldsmat og útbreiðslu elds

Nokkrar leiðir eru notaðar til að halda gróðri í skefjum, til dæmis sláttur eða beit húsdýra á ónotuðum túnum og meðfram vegum, ræktun til sláttar í beltum, þvert í gegnum skóga með reglulegu millibili, eða gróðursetning trjábelta sem brenna illa, til dæmis aspar eða uppkvistaðs lerkis. Hafðu einnig í huga að halda lággróðri í lágmarki upp við byggingar eða raflínur í skógum. Best er að hafa gróðurlítið eða gróðursnautt svæði allt að 1,5 m breitt næst byggingu. Forðastu ruslsöfnun í skógi eða upp við hús. Bensín, gaskúta, hjólbarða eða áburð þarf að geyma á öruggum stöðum með góðu aðgengi. Mikill eldsmatur getur verið í sinu (grasi eða lúpínu), mosa, lággróðri og í skógi. Staðir þar sem best er að verjast eldi og hindra frekari útbreiðslu hans eru kallaðir varnarlínur. Þetta eru staðir eins og vegir, slóðir, lækir, ár, vötn og skurðir eða gróðurlítil belti. Þessar varnarlínur mynda svokölluð brunahólf sem eru mismunandi að stærð. Innan hvers brunahólfs getur allur gróður brunnið. Kynntu þér brunahólf og varnarlínur í þínu nágrenni.

Minnka eldsmat og útbreiðslu

LÁGGRÓÐUR

Haltu lággróðri í lágmarki með slætti eða beit.

Í gegnum skóginn

Í GEGNUM SKÓGINN

Gerðu ráð fyrir gróðurlitlum beltum í gegnum skóginn.

Trjábelti

TRJÁBELTI

Gróðursettu trjábelti með tegundum sem brenna hægt eða illa.

Meðferð elds á grónu svæði

Þegar gróður er þurr þarf aðeins lítinn neista til að kveikja eld. Í lang­varandi þurrk­um og hvassviðri skal sýna sérstaka aðgát og fara varlega með vélar og eld úti við. Dæmi eru um gróðurbruna hér á landi út frá sígarettum, flugeldum, bílvélum og einnota útigrillum svo fátt eitt sé nefnt. Best er að kveikja eld á þar til gerðum svæðum. Ef kveiktur er eldur utandyra skal einungis gera það á opnu svæði og gæta þess að ekki séu eldfim efni nærri, þurr lauf, gróður eða viður. Neistar geta fokið frá eldstæði og kveikt í gróðri, jafnvel langt í burtu. Hafðu alltaf tiltæka skóflu og vatnsfötu. Best er að ákveðinn einstaklingur taki ábyrgð og yfirgefi eldinn ekki fyrr en tryggt er að hann sé kulnaður og slokknað í glóð. Helltu vatni yfir eldinn til að kæfa hann. Veltu öllum kolum við og bleyttu vel, gættu að því að ekki finnist hiti með því að leggja höndina yfir. Að því loknu skaltu moka mold eða sandi yfir og hræra saman við kolin. Haltu eldinum eins litlum og mögulegt er og taktu tillit til aðstæðna. Að öðrum kosti skal sækja um leyfi slökkvi­liðsins á staðnum. Ekki leggja einnota grill beint á gras, gróður eða önnur brennanleg efni. Undirlagið skal vera möl eða steinar. Fylgstu með grillinu meðan eldur er í því og helltu vatni yfir kolin að notkun lokinni. Nauðsynlegt er að yfirfara öll grill reglulega. Gasgrill sem staðið hafa ónotuð þarf að yfirfara og skipta t.d. um slöngu.

Meðferð elds á grónu svæði

HEITAR VÉLAR

Geta kveikt í þurrum gróðri

Sígarettur

SÍGARETTUR

Kviknað getur í út frá sígarettu.

Einnota grill

GRILLBELTI

Notaðu rétt undirlag undir einnota grill

Skipulag skóga

Að skógrækt koma, auk Skógræktarinnar, ýmis félagasamtök, sumarhúsa­eigendur, skógræktarfélög, bændur og fleiri. Þegar skógi er plantað er mikilvægt að hann sé ekki of samfelldur og hafa skal í huga hólfun með varnarlínum. Skipta má ­skóginum upp með því að planta ákveðnum ­tegundum lauftrjáa í belti sem brenna síður. Hægt er að nýta misfellur í landslaginu og slóðir sem varnarlínur. Einnig þarf að huga að flóttaleiðum út úr skóginum og hafa fleiri en einn möguleika ef eldur lokar útgönguleið. Aðgengi að vatni er mikilvægt. Ráðlegt er að hafa ­samráð við sérfræðinga þegar svæðið er skipulagt svo allt aðgengi sé eins og best verður á kosið. Slíkt samráð ­tryggir líka betri samskipti milli aðila ef eldur kemur upp í skóginum. Huga skal að varnarlínum og brunahólfum alls staðar þar sem skógur er ræktaður. Leitaðu þér upplýsinga.

Eldvarnarhólf

ELDVARNARHÓLF

Skóginum skal skipt í eldvarnarhólf.

Vatn

VATN

Aðgengi að vatni er mikilvægt allan ársins hring.

Í gegnum skóginn

FLÓTTALEIÐIR

Fleiri en ein flóttaleið eykur öryggi.

Útbúnaður til eldvarna í gróðri

Þar sem mikið er í húfi þarf ávallt að hafa réttan búnað til slökkvistarfa tiltækan. Slökkvilið gæti þurft að fara um langan veg eða yfir torfarið land til að koma til ­hjálpar og því skiptir máli að geta brugðist hratt við. Haugdæla sem er tilbúin, full af vatni á frostlausum stað, getur skipt sköpum. Aðeins tekur örfáar mínútur að tengja hana við dráttarvél og öflug dráttarvél ræður við að fara með haugdælu yfir talsvert gróft land. Tankar fullir af vatni búnir dælu og slöngu, sem geymdir eru á frostlausum stað, geta líka gagnast á sama hátt ef þeir eru fluttir að brunasvæðinu með dráttarvél. Þegar land er ófrosið kemur jarðtætari í góðar þarfir til að útbúa eldvarnarlínur. Plógar og eldklöppur gagnast við að hefta sinueld. Rétt hannað vatnstökulón er frostfrítt jafnt sumar sem vetur og ætti að vera ­aðgengilegt á skógræktarsvæðum. Ef nóg er af vatni frá náttúrunnar hendi þarf að tryggja að aðgengi sé gott.

Áhöld

ÁHÖLD

Ýmis áhöld gagnast vel til slökkvistarfa.

Haugdælur

HAUGDÆLUR

Haugdælur hafa reynst vel í baráttu við gróðurelda.

Lón

LÓN

Vatnstökulón ætti að vera aðgengilegt á skógræktarsvæðum.

Sumarhúsaeigendur

Mikilvægt er að gera ráð fyrir öryggissvæði allt að 1,5 m umhverfis hús, þar sem gróðri er haldið í lágmarki. Ef húsið stendur í brekku þarf öryggissvæðið að ná lengra niður brekkuna. Þar sem hægt er að koma því við er beit hrossa eða sauðfjár í takmarkaðan tíma, til að halda grasvexti niðri, afar ákjósan­legur kostur því þannig má takmarka sinu, ef ekki er hægt að koma við slætti. Umgengni umhverfis hús og í skógi skiptir miklu máli. Undir veröndum sumarhúsa á ekki að safna rusli eða geyma bensín, gaskúta, hjólbarða eða áburð. Hægt er að hólfa ræktarland með því að leggja malarstíga eða skipta upp landinu á annan hátt með gróðurlausum beltum. Miklilvægt er að huga að flóttaleiðum og hafa til staðar útbúnað til lágmarks ­eldvarna.

GAS OG ELDSNEYTI

GAS OG ELDSNEYTI

Geymdu gaskúta og eldsneytisgeyma á öruggum stað.

VATN

VATN

Tryggðu auðveldan aðgang að vatni.

ELDVARNIR

ELDVARNIR

Eldvarnir innandyra eru einnig mikilvægar.

Lágmarksútbúnaður til eldvarna í gróðri

Nauðsynlegt er fyrir landeigendur og sumarbústaðaeigendur að vera undir það búnir að ráða við minniháttar eld í grónu landi. Hver sekúnda getur skipt máli ef eldur kemur upp. Eldklöppur og aðangur að garðslöngu er lágmarksútbúnaður. Þær ættu alltaf að vera til taks á aðgengilegum stað, til dæmis á vegg sumarhúss. Þar sem nóg er af vatni er gott að hafa garðslöngu sem nær um tvo hringi í kringum húsið með hraðtengi við krana. Gott er að koma sér upp vatnstanki eða vatnsbóli ef aðgangur að vatni er ekki tryggur. Þannig má verja hús og nánasta umhverfi og slökkva elda sem eru á byrjunarstigi. Skynsamlegt er að hafa til taks t.d. hlífðargleraugu, hanska, grímu og vinnugalla, ekki föt úr gerviefnum sem eru eldfim. Öryggi viðstaddra er ávallt mikilvægast við slökkvistörf og kalla skal strax út viðbragðsaðila með því að hringja í 112.

GAS OG ELDSNEYTI

ELDKLÖPPUR

Eldklöppur ættu alltaf að vera til taks og aðgangur að vatni tryggður.

VATN

GERVIEFNI

Föt úr gerviefnum eru eldfim, náttúruleg efni brenna síður.

ELDVARNIR

AÐSTÆÐUR

Aðstæður eru mismunandi hverju sinni, ekki stofna lífi þínu eða annarra í hættu.

Gróðureldar

Gróðureldar eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi en geta verið illviðráðanlegir ef eldur berst í þurran gróður. Á undanförnum áratugum hefur trjám verið plantað í miklum mæli á Íslandi. ­Ógrisjaður,­ þéttur skógur getur verið illfær vegna þess að greinar hans eru samfléttaðar frá skógarbotni og upp úr. Slíkur skógur er hættu­legastur með tilliti til gróðurelda. Veðurfar hefur mikil áhrif á hættu á gróðurbruna og miklir gróðurbrunar verða yfirleitt í langvarandi þurrkum og hvassviðri. Eldur og reykur getur stefnt lífi fólks í hættu og valdið verulegu eignatjóni. Rétt viðbrögð og forvarnir geta þá skipt sköpum og er tilgangur okkar að kynna helstu atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga varðandi eld í gróðri.

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir