Hvar verða öflugir jarðskjálftar?

Neðangreind mynd sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi í gögnum Veðurstofunnar yfir 20 ára tímabil, frá 1995 til 2014. Flekaskilin hafa verið dregin inn á kortið og sýnir þykkt línunnar hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna (Norður-Ameríku-, Hreppa-, og Evrasíufleki).

Jarðskorpuflekar

Tjón og forvarnir á húsum

Sjaldgæft er að hús á Íslandi hrynji í jarðskjálfta. Algengara er að það verði kostnaðarsamar skemmdir og hús jafnvel orðið óíbúðarhæf. Tjónaflokkar hjá Náttúruhamfaratryggingu í kjölfar Suðurlandsskjálftana 2008 sýna dæmi um tjón sem orðið hefur. Tjónaflokkarnir eru:

Skemmdir á burðarvirki

    • Fylling undir húsi (kallar á jarðvinnu).
    • Undirstöður og botnplata.
    • Ytri burðarvirki (veggir, súlur, bitar og stigar).
    • Þakbygging.
    • Innri burðarvirki (veggir, súlur, bitar, gólfplötur og stigar).

     

    Skemmdir á öðrum húshlutum

      • Skilveggir, fúgur, loftklæðning og annar frágangur innanhúss.
      • Innréttingar, þ.m.t. í eldhús og baðherbergi, hurðir, gólfefni, veggflísar, o.fl.
      • Gluggar, gler, útihurðir, veggklæðning, o.fl.
      • Yfirborðssprungur inni og úti (kallar á sprungufyllingu og málningu).
      • Pípulagnir (kalt vatn, heitt vatn og fráveitur), ofnar og raflagnir.

    Hægt er að styrkja hús eftir að þau hafa verið byggð. Til dæmis voru krossböndin í gluggum í Ráðhúsi Árborgar sett í eftir að húsið var byggt til að styrkja það. Ef þú vilt vera viss um að húsið þitt sé vel varið gagnvart jarðskjálfta skaltu hafa samband við byggingarfulltrúa eða verkfræðistofu til að fá mat á húsið.

      Ráðhús Árborgar

      Tjón og forvarnir á innbúi

      Lausir munir geta henst til og frá í jarðskjálftum. Eftirfarandi myndir sýna dæmi af Suðurlandi. Myndirnar eru teknar úr sama húsinu.

        svefnherbergi
        svefnherbergi2

        Til að fyrirbyggja slys á fólki og skemmdir á munum og umhverfi þarf að gera umhverfið þannig að hlutir, húsmunir og annað lauslegt hreyfist sem minnst úr stað við jarðskjálfta. Hægt er að festa innbú m.a. með eftirfarandi hætti:

        Vinnuaðstaða

        Húsgögn

          • Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Hafið hjól á húsgögnum í læstri stöðu. Ef engin læsing er á hjólunum, setjið ramma utan um hjólin til að koma í veg fyrir að húsgögnin renni af stað í jarðskjálfta.
          • Rammi eða læsing á hjólum kemur ekki í veg fyrir að húsgögn velti.

        Festa lausamuni

        Lausir munir og skrautmunir

          • Nota má kennaratyggjó til að tryggja að léttir skrautmunir og aðrir léttir munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.
          • Setjið þunga muni neðarlega í hillur eða festið tryggilega á veggi.
          • Þungur borðbúnaður og hlutir eru best geymdir  í neðri skápum, helst lokuðum.

          Kynditæki, ofnar og þvottavélar

            • Festið kynditæki og hitaveituofna tryggilega þannig að þau geta ekki hoppað fram af festingum.
            • Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið.
            • Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum.

            Loft og gólf

              • Gangið vel frá niðurhengdum loftum og upphækkuðum gólfum, þannig að það getið tekið við jarðskjálftaálagi.

              Skápahurðir

                • Setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.

                Myndir og ljósakrónur

                  • Festið myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.

                  Rúður

                    • Byrgið fyrir glugga eða setjið öryggisfilmu á rúður til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar

                    Svefnstaðir

                      • Fyrirbyggið að hillur, skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði.
                      • Varist að hafa rúm við hlaðna milliveggi.
                      • Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.

                      Viðbrögð vegna jarðskjálfta

                        Ef þú ert innan dyra:

                          • Ekki hlaupa – mörg slys verða þegar hlaupið er af stað. Ef hlaupið er um í óðagoti aukast líkurnar á því að verða fyrir hlutum sem falla úr hillum eða af veggjum og þess háttar. Þá geta verið glerbrot á gólfum ásamt ótal muna sem geta valdið slysi ef stigið er ógætilega.
                          • Reyndu heldur að forðast fallandi hluti og hluti á hreyfingu. Til dæmis:
                            • Húsgögn. Varist húsgögn sem geta hreyfst úr stað. Verðu höfuð og háls, haltu þér í sterkbyggð húsgögn.
                            • Innihald skápa. Varist hluti sem detta úr hillum og skápum, sérstaklega í eldhúsi.
                            • Ofnar og kynditæki. Haldið ykkur fjarri ofnum og kynditækjum sem hendast út af festingum.
                            • Rúðubrot. Varist stórar rúður sem geta brotnað.
                            • Við jarðskjálfta geta hlutar úr byggingunni brotnað af. Haldið ykkur fjarri þeim stöðum í húsinu þar sem hætta er á hrynjandi byggingahlutum.
                          • Almennt er best að forða sér með því t.d. að fara í horn burðarveggja fjarri gluggum, fara undir borð eða rúm, í dyragætt ef hurðin sjálf er ekki að sveiflast og valda hættu, eða standa við lokaðar dyr. Hafa í huga að hurðir hafa lokast fastar þegar hús hafa skekkst og hefur reynst vel að opna lokaðar hurðir í upphafi skjálftans – ef hægt er sökum hristings.
                            • KRJÚPA – SKÝLA – HALDA-er orðaröð sem rétt er að leggja á minnið þegar farið eru undir borð.
                            • Nauðsynlegt er að útfæra KRJÚPA – SKÝLA – HALDAmiðað við aðstæður, t.d. hjólastól.

                            Ef þú ert utan dyra:

                                • Vertu áfram úti – reyndu að komast á opið svæði frá byggingum sem geta hrunið. Farið lengra frá mannvirkjum en nemur hæð þeirra.
                                • Forðist raflínumöstur. Raflínur eru hættulegar ef þær slitna – Aldrei snerta fallnar raflínur.
                                • Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi.
                                • Varast skal fjallsbrúnir.
                                • Vertu vakandi fyrir sprungum sem geta opnast og aðrar hreyfingar í jörðinni.
                                • Sestu ef þú átt erfitt með að standa, til að fyrirbyggja að þú dettir.
                                • Farðu frá sjávarsíðu, vegna hættu á flóðbylgju. Ef þú sérð sjóinn fara út mun hann koma aftur í stórri bylgju.

                            Ef þú ert úti að keyra

                                • Stöðvaðu bifreiðina eins fljótt og unnt er, fjarri byggingum, vegbrúm eða háspennulínum.
                                • Haltu kyrru fyrir með beltin spennt þar til jarðskjálftinn gengur yfir. Bíllinn getur varið þig gegn brotum og braki.
                                • Haldið þá varlega áfram og gætið að, því brýr og vegir geta skemmst í stórum skjálftum.