Öryggisbúnaður í íbúð

Brunavarnir Árnessýslu

Reykskynjarar gætu bjargað lífi þínu!

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem ættu að vera á hverju heimili.

Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. En til þess þurfa þeir:

  • Að vera til staðar og á réttum stað.
  • Að vera réttrar gerðar og í lagi.
  • Að hafa góða rafhlöðu.
  • Til eru tvær megingerðir af reykskynjurum, optískir og jónískir, auk skynjara sem sameinar eiginleika beggja.
  • Jóníski skynjarinn skynjar vel reyk með stórum ögnum, til dæmis opinn eld, en síður upphaf glóðarbruna, til dæmis í sófa, sem optíski skynjarinn nemur hins vegar mjög vel.
  • Því er æskilegt að hafa báðar gerðirnar á heimilinu.
  • Einnig eru til samtengjanlegir reykskynjarar og skynjarar með ratljósi.

Hafið eftirfarandi í huga um reykskynjara:

  • Ekki staðsetja reykskynjara í eða of nálægt eldhúsi.
  • Setjið optískan reykskynjara á ganga eða opin svæði.
  • Setjið optískan reykskynjara nálægt rafmagnstöflu.
  • Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi.
  • Best er að samtengja alla reykskynjara í íbúðinni.
  • Sé íbúðin fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir.
  • Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 sm.
  • Skiptið um rafhlöðu í reykskynjaranum árlega.
  • Prófið reykskynjarann mánaðarlega með því að ýta á prófunarhnappinn.
  • Líftími reykskynjara er um það bil tíu ár. Aðgætið framleiðsludag/ár þegar reykskynjari er keyptur.

Handslökkvitæki

Til eru margar gerðir slökkvitækja sem hafa má á heimilum. Mikilvægt er að allir á heimilinu viti hvar slökkvitæki eru geymd og hvernig á að beita þeim. Slökkvitæki ber að yfirfara árlega af viðurkenndum þjónustuaðilum.

  • Duftslökkvitæki eru ætluð á alla elda. Ekki er þó tryggt að duftið slökkvi eld þar sem myndast hefur glóð. Ráðlögð stærð á heimili er sex kg.
  • Kolsýruslökkvitæki eru aðallega ætluð á virk rafmagnstæki. Þau slökkva þó ekki glóðareld fremur en duftslökkvitækin. Þau eru til í mörgum gerðum og stærðum, allt frá tveimur kg.
  • Vatnsslökkvitæki eru aðallega ætluð á elda í föstum efnum, til dæmis timbri, vefnaði og pappír. Algengasta stærð tækjanna er tíu lítrar.
  • Léttvatnsslökkvitæki eru vatnsslökkvitæki sem froðuefni hefur verið bætt út í. Þau duga á sömu elda og vatnstækin en auk þess á olíu-, feitis- og rafmagnselda. Algengasta stærðin er sex og tíu lítrar.

Eldvarnatepppi

Eldvarnateppi eru til í mörgum stærðum og þau má nota aftur og aftur. Teppið er lagt yfir hinn brennandi hlut og þétt að. Ef teppið fer ofan í feiti í potti getur logað í gegnum það. Þá er teppið tekið af og byrjað upp á nýtt.

Komum í veg fyrir útbreiðslu elds og reyks

Veggir á milli íbúðar og bílskúrs eiga að vera að minnsta kosti EI60 og eiga að ná upp í þak. Hurð á milli íbúðar og bílskúrs á að vera að minnsta kosti EI-SC30, það eru hurðir sem þola að minnsta kosti þrjátíu mínútna brunaálag. Þær eru reykþéttar og sjálflokandi. Hurðin má ekki opnast beint inn í íbúðina, heldur inn í forstofu eða sambærilegt lokanlegt rými. Ef geymslukjallari er undir húsinu þurfa veggir að hafa að minnsta kosti 60 mínútna brunaþol og hurð þyrfti að vera minnst EICS30.

Ef sorpgeymsla er innbyggð skulu veggir hennar vera að minnsta kosti EI60. Ekki á að vera innangengt í sorpgeymslu heldur skal aðkoma að henni vera utanfrá, dyr að þeim eiga að vera læstar.

Sorptunnur á ekki að staðsetja of nærri brennanlegum útveggjum, og ekki undir gluggum bygginga, það er að minnsta kosti þremur metrum frá timburvegg og tveimur metrum frá járnklæddum timburvegg.

Best er að byggja sorpgeymslu úr óbrennanlegum efnum. Slík geymsla getur staðið upp við timburbyggingu. Geymslan þarf að vera læst.

Ef göt eru á milli brunahólfa, til dæmis á milli íbúðar og bílskúrs þarf að þétta þau með viðurkenndum efnum það er að segja steinull og múr eða steinull og eldvarnaefnum. Blikkrör í þakrými þarf að einangra með netull og vefja hana með tveggja millimetra vír.

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir