Slökkvilið Eyrarbakka-Sagan

Fyrstu lög um brunavarnir voru sett á Íslandi árið 1907. Þá höfðu verið starfandi slökkvilið í stærstu bæjum landsins um áratugi. Eyrbekkingar sinntu ekki um brunavarnir fyrr en Stjórnarráð Íslands krafðist þess að hreppsnefndin kæmi upp viðunandi slökkviáhöldum í þorpinu. Í kjölfar þess var keypt handknúin slökkvidæla árið 1912. Hún var þýsk framleiðsla og var J. R. B. Lefolii kaupmanni falið að annast kaup á henni og flutning hennar til landsins á skipum sínum. Fjóra menn þurfti til að dæla með henni og varð að flytja vatn í hana í fötum úr sjó eða nærliggjandi dælum. Jafnhliða var komið á fót brunaliði, en ekki er vitað um fjölda liðsmanna þess. Sérstakur brunalúður var notaður til að kalla menn út til slökkvistarfa áður en síminn varð almenningseign. Tilnefndir brunaverðir eða lúðurblásarar fóru um þorpið, blésu í lúðurinn og gerðu mönnum viðvart þegar eldur braust út. Brunalúðurinn og dælan eru nú á Sjóminjasafninu á Eyrarbakka.

Áður hafði Lefoliiverslun haft frumkvæði um brunavarnir í þorpinu. Til eru fjölfaldaðar leiðbeiningar við eldsvoða eftir Peter Nielsen verslunarstjóra, og virðist þeim hafa verið dreift í öll hús í þorpinu. Þar er fólki sagt í fjórum liðum hvernig eigi að bregðast við eldsvoða. Meðal annars er fjallað um hvernig verja eigi nærliggjandi hús. Lefoliiverslun hafði tiltæk nauðsynleg áhöld til brunavarna svo sem segl til að breiða á næstu hús og fleira. Það var því að frumkvæði dönsku verslunarinnar sem fyrstu brunavörnum var komið upp á Eyrarbakka. Þörfin var öllum ljós því um leið og timburhúsaöld gekk í garð fóru húsbrunar að taka sinn toll af húsakosti þorpsins. Veitingahúsið Ingólfur brann árið 1887 og íbúðarhúsin Jóhannshús 1895 og Oddsstekkur 1899, svo dæmi séu nefnd.

Eftir að handslökkvidælan barst til landsins var byggt sérstakt hús yfir hana og þann fylgibúnað sem henni fylgdi eins og fötur og slöngur. Skúrinn, sem kallaður var slökkviáhaldaskúr, var áfastur Háeyrarpakkhúsi, sem var fyrir miðju þorpsins. Dælan var m.a. notuð þegar verslunin Ingólfur brann árið 1914 og þótti duga vel samkvæmt frásögn í blaðinu Suðurlandi.

Handslökkvidælan var leyst af hólmi með vélknúinni dælu árið 1931 og samhliða var keyptur rafknúinn brunalúður. Þá voru kosnir sérstakir dælustjórar í slökkviliðið til að hafa umsjón með dælunum og voru menn vanir vélum valdir til þess starfa. Um 1930 var Háeyrarpakkhúsið tekið niður og viðirnir fluttir í Skerjafjörð þar sem byggt var úr þeim íbúðarhús. Nýrri slökkvidælu var komið fyrir tímabundið í Timburskúrnum við Stíghús. Árið 1933 voru húsin í Óseyrarnesi rifin, en þau voru eign hreppsins. Úr því timbri sem nýtilegt var úr þeim var byggt hús fyrir slökkviáhöld. Það hús gekk undir nafninu Brunaskúrinn og var sunnan við Læknishúsið á svipuðum slóðum og slökkviáhaldaskúrinn hafði áður verið. Á skúrnum var mikill turn til að hengja upp slöngurnar. Árið 1939 var samþykkt sérstök reglugerð um skipun slökkviliðs og brunamála í Eyrarbakkakauptúni. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar leigði setuliðið brunaskúrinn og hafði þar sólarhringsvakt enda turninn góður útsýnisstaður. Árið 1948 voru bæði dælan og slöngurnar úr sér gengnar og keypt ný dæla og búnaður.

Fyrsti slökkvibíllinn var keyptur til Eyrarbakka árið 1957. Hann var keyptur notaður frá Hafnarfirði. Bílinn var af gerðinni Chevrolet, árgerð 1942. Þá var gamla Rafstöðin einnig keypt fyrir slökkvistöð. Árið 1983 var keyptur til slökkviliðsins notaður bíll af gerðinni Bedford, árgerð 1970.

Eftir því sem næst verður komist gengdu þessir menn starfi slökkvistjóra: Einar Jónsson bifreiðastjóri (1913-20 og (1925-31), Júlíus Ingvarsson trésmiður (1920-23), Jón B. Stefánsson íshússtjóri (1923-25), Árni Helgason formaður (1931-34), Jóhann Bjarnason formaður (1934-38), Gísli Jónsson bóndi (1938-46), Ólafur Bjarnason verkstjóri (1946-50), Torfi Nikulásson fangavörður (1950-70), Hannes Þorbergsson bifreiðastjóri (1970-72), Eiríkur Guðmundsson trésmiður (1972-79) og Gísli Sigurðsson bifreiðastjóri (1979-89).

Slökkviliðið var oft kallað út bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri, sérstaklega á meðan húshitun var með öðrum hætti en nú er. Einn slökkviliðsmaður minnist þess t.d. að hafa 24 sinnum lent í brunaútkalli að Litla-Hrauni. Það fylgdi því mikið álag að vera í liðinu.

Eyrarbakkahreppur gerðist aðili að Brunavörnum Árnessýslu árið 1989 og tækjabúnaður slökkviliðsins rann til þeirra að undanskildum eldri slökkvibílnum sem er í eigu Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka.

Höfundur: Inga Lára Baldvinsdóttir. Að stofni til byggt á texta í bókinni Margur í sandinn hér markaði slóð…

Forsíða

Myndir

Um okkur

Gjaldskrá

Lög og reglugerðir

Fundargerðir

Bílaflotinn

Viðbrögð við jarðskjálfta

Almennar forvarnir

Eldvarnir í fjölbýli/sérbýli

Viðbrögð við vá

Gróðureldar

Skoðanaáætlun

Slökkvitækjaþjónusta

Nám slökkviliðsmanna

Nám hlutastarfandi

Nám eldvarnaeftirlit

Löggilding

Kennslugögn v/fornáms

Umsókn

Starfsmannafélag

Brunavarnir Árnessýslu
Árvegi 1. 800 Selfoss
Sími 4-800-900
ba@babubabu.is

Slökkvi- og björgunarstörf

Vertu með

Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

Eftirlitsáætlun

Þjónusta

Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

Fróðleikur

Heimsóknir