Almannavarnir
Hvað eru almannavarnir?
Almannavarnir eru samnefnari viðbragða og úrræða þegar hættu- og neyðarástand skapast í samfélaginu. Við minniháttar slys bregst hin daglega neyðarþjónusta við með hefðbundum hætti, en við almannavarnaástand fara neyðarþjónustan (lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkrahús, Landhelgisgæslan, neyðarsímsvörun), líknarfélög (t.d. Rauði krossinn), starfsmenn sveitarfélaga (bæjarstjórar, tæknideildir) og aðrir að vinna eftir einu samræmdu skipulagi, neyðarskipulagi almannavarna.
Almannavarnanefndir skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna tjóns eða hættu sem skapast hefur, hver í sínu héraði eða umdæmi, undir stjórn lögreglustjóra. Þegar áfall hefur orðið, af þeirri stærðargráðu að úrræði innan héraðs eða umdæmis duga ekki til að mæta því, leita almannavarnanefndir eftir utanaðkomandi aðstoð til Almannavarna ríkisins.
Almannavarnir ríkisins eru stofnun undir dómsmálaráðuneytinu, sem samræmir starfsemi almannavarna á landsvísu og stýrir utanaðkomandi aðstoð (frá ríkisstofnunum, öðrum umdæmum eða alþjóðlegri aðstoð).
Í neyðarástandi þegar mikill fjöldi fólks þarf á hjálp að halda, þarf að virkja marga til þess að veita eða skipuleggja hjálpina. Því fleirum sem þarf að hjálpa, því umfangsmeiri verður aðstoðin. Reynslan bæði hérlendis og erlendis hefur sýnt að mest munar um þá sem eru nærstaddir þegar áfallið dynur yfir og rétta þarf fólki hjálparhönd. Þannig gegnir hver og einn maður mikilvægu hlutverki í almannavörnum.
Almannavarnir bregðast strax við hættu- eða neyðarástandi, en hafa skal í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp. Því þarf fólk að vera undir það búið að bjarga sér sjálft, þar til hjálp berst. Sækja „Almannavarnir áhættumat“
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Forvarnir
Ef þú kynnir þér hvað getur valdið bruna og nýtir þér þá þekkingu til þess að hafa hlutina í lagi, getur þú minnkað hættu á eldsvoða til muna. Í þessum hluta eru tekin fyrir atriði sem geta valdið bruna og hvernig þú getur minnkað hættuna á íkveikju.
Eldhús
Þegar kviknar í út frá rafmagni þá er það oftast frá eldavélum.Yfirleitt er það vegna aðgæsluleysis.
Eldavélin
Bruni út frá eldavél verður sjaldnast vegna bilunar í eldavélinni sjálfri – þar þarf mannshöndin að koma nærri. Í næstum öllum tilvikum tengist bruninn aðgæsluleysi við notkun eldavélarinnar.
Alltof mörg dæmi eru um eldsvoða vegna þess að pottur eða panna hefur verið skilin eftir á heitri hellu meðan athyglin beinist að öðru. Að svara í símann eitt andartak – sinna börnunum – kíkja á sjónvarpið – kann að virðast áhættulítið. Reynslan sýnir að tíminn getur liðið hratt og eldur verður oft laus einmitt af þessum ástæðum. Mikilvægt er að skilja aldrei við pott eða pönnu á heitri hellu né skilja steikina eftir í ofninum á meðan skroppið er út í búð.
Auðveldlega má komast hjá flestum eldavélabrunum með því að gæta að eftirfarandi atriðum:
- Fara aldrei frá heitri hellu.
- Ekki hengja upp viskustykki, klúta eða annað eldfimt fyrir ofan eldavélina.
- Halda hreinu – feiti á helluborði eða í viftu er eldsmatur.
- Sýna varúð við djúpsteikingu – olían logar ef hún ofhitnar.
- Muna að eldhúsið er ekki leikvöllur – börn geta kveikt á hellu.
Olía notuð við matargerð
Þegar olía er notuð við matargerð, t.d. við djúpsteikingu eða kleinubakstur, verður að gæta þess að nota hæfilega mikið magn og að olían ofhitni ekki. Olían er orðin of heit þegar byrjar að rjúka úr henni og réttast að færa pottinn strax til. Þá eru dæmi um eldsvoða vegna þess að kveikt var á eldavél í ógáti og eitthvað, t.d. tuska eða pappír, hafði verið lagt á helluborðið.
Ef illa fer og eldur er laus geta rétt viðbrögð forðað stórfelldu tjóni og jafnvel bjargað mannslífum. Mikilvæg atriði:
- Þegar byrjar að rjúka úr olíu – taktu pottinn þá strax af hellunni.
- Aldrei snerta pottinn með berum höndum – hann brennir.
- Nota eldvarnarteppi til að slökkva eldinn – alls ekki vatn á olíu.
- Reyna aðeins að slökkva viðráðanlegan eld – annars forða sér, loka hurðum og hringja í 112.
Ef það byrjar að loga í potti eða pönnu eru rétt viðbrögð fyrir öllu. Ef aðeins er byrjað að rjúka úr feitinni þá er það merki um að eldur sé við það að kvikna og þá þurfi að taka pottinn strax af heitri hellunni. Ekki snerta pottinn með berum höndum til þess að færa hann, það getur valdið slæmum brunasárum.
Ef eldur logar má eingöngu reyna að slökkva hann ef hann er viðráðanlegur. Það skal gera með því að kæfa hann t.d. með eldvarnarteppi, jafnvel pottlokinu ef hann er mjög lítill. Aldrei má setja vatn á eld í olíu eða feiti – það getur verið stórhættulegt og slekkur alls ekki eldinn.
Ef eldurinn hefur breitt úr sér út frá byrjunarstað, er nánast öruggt að þú getur ekki slökkt hann og ekkert annað að gera en að loka hurðum, forða sér og hringja í 112.
Loftun
Gakktu úr skugga um að viftan eða háfurinn virki almennilega og að síur séu í lagi til þess að eldfim fita safnist ekki upp í eldhúsinu.
Öryggið
Hafðu reykskynjara við eldhúsið (nánar skýrt í kaflanum um reykskynjara).
Fáðu þér eldvarnarteppi og settu það upp á áberandi stað. Eldvarnarteppi sem geymt er ofan í skúffu eða inn í skáp getur gleymst í hita leiksins.
Þvottahús
Helstu hættur í þvottahúsi eru í sambandi við þvottavél og þurrkara. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:
- Þrífa reglulega og hreinsa ló í og við þvottavélar og þurrkara, það þarf ekki mikið til þess að það kvikni í ló og öðrum óhreinindum sem safnast upp.
- Þvottavélar og þurrkarar vinna á miklum snúningshraða og þurfa að yfirfarast reglulega.
- Aldrei fara að heiman meðan þvottavélin eða þurrkarinn er í gangi. Það hefur kviknað í þessum tækjum meðan fólk hefur skroppið út í búð!
Sjá til þess að rafmagnstengingar séu vel einangraðar og séu ekki þar sem þær geta blotnað og valdið neista.
Rétt er að benda á að til eru slökkvitæki sem hægt er að setja í þvottavélar og þurrkara rétt eins og sjónvörp og fást slík tæki í öllum helstu verslunum með eldvarnarbúnað.
Stofur
Í stofum og sjónvarpsherbergjum höfum við marga hluti sem geta valdið íkveikju, t.d. sjónvarp, hljómflutningstæki, myndbandstæki, dvd spilara, kerti og arinn. Skoðum þetta nánar.
Sjónvarpið og önnur tæki
Sjónvarpið er oft orsakavaldur íkveikju og því nokkrir hlutir sem vert er að hafa í huga.
- Sjónvarpsbrunar eru með verstu brunum sem upp geta komið.
- Ef myndlampinn (túpan) nær að springa myndast mikill hiti og eldagnir skjótast um allt, í fólk, húsgögn, gluggatjöld og annað sem fyrir er.
- Erfitt getur reynst að koma handslökkvitæki að til að slökkva eldinn.
- Þegar slökkt er á tækjunum með fjarstýringu, helst straumurinn áfram á því og brunahættan er því stöðugt fyrir hendi.
- Sjónvörp virka líkt og ryksugur. Þau draga að sér rykagnir úr andrúmsloftinu sem setjast í rafbúnað tækisins. Þetta getur valdi skammhlaupi og síðan íkveikju. Haldið því vel hreinu í kringum rafmagnstækin og látið hreinsa sjónvörpin reglulega.
- Hættan er til staðar hvort sem tækin eru ný eða gömul.
- Slökkvið alveg á sjónvarpi eftir notkun. Notið ekki fjarstýringuna til að slökkva.
- Ef þið notið fjöltengi, slökkvið fyrst á sjónvarpinu og síðan á fjöltenginu. Eins þarf að byrja á að kveikja á fjöltengi áður en kveikt er á sjónvarpi, því þegar kveikt er á sjónvarpi fer öflugt afsegulmögnunarkerfi í gang. Það eykur álag á rofann og venjulegur rofi í fjöltengi er ekki gerður fyrir slíkt álag.
- Ekki hafa sjónvarpið og tækin sem því fylgja aflokuð. Það þarf að lofta vel um þessi tæki svo þau ofhitna ekki.
- Gott ráð er að láta yfirfara gömul raftæki sem safna í sig ryki og minnka þannig hættu á bruna vegna skammhlaups.
- Til er mjög góður slökkvibúnaður til þess að setja í sjónvörp. Hann bregst við um leið og eldur kviknar og slekkur hann. Þessi búnaður fæst í helstu verslunum með eldvarnabúnað og víðar.
Arinn
- Gangið um arinn með nærgætni.
- Ekki hafa hluti nær en 1 metra frá arninum.
- Hreinsið arininn reglulega.
- Gangið úr skugga um að það sé örugglega slökkt í öllum glóðum áður en farið er að sofa eða húsnæði yfirgefið.
- Ekki þurrka föt á arninum, látið þau vera í að minnsta kosti. 1 metra frá honum.
- Ekki brenna hluti í arninum sem gefa frá sér mjög eitraðan reyk, s.s. plast- og gúmmíefni.
- Frágangur á arni þarf að vera í lagi svo hann geti ekki valdið íkveikju. Látið fagmenn sjá um uppsetningu.
Herbergi
Í svefnherbergjum, sérstaklega í barna- og unglingaherbergjum geta verið hlutir sem valda íkveikju, t.d. tölvur, sjónvörp og hljómflutningstæki. Um þessa hluti gilda sömu atriði og fjallað er um í kaflanum um stofur. Einnig er vert að sjá til þess að ekkert sé í barnaherbergjum sem börn geta kveikt í með fikti eða óvitaskap. Lampar geta kveikt í ef dúkkuföt eða annað eldfimt er sett á þá. Gættu því ávallt vel að börnum og því hvort þau séu að gera eitthvað sem valdið getur íkveikju.
Bílskúr
Bílskúrar eru oft miðstöð hættulegra efna og hluta sem geta valdið íkveikju.
- Ekki vera með marga gaskúta – þeir eru hættulegir ef kviknar í.
- Hafðu þynni og önnur eldfim efni í vel lokuðum umbúðum og haltu þeim frá miklum hita og ljósi.
- Ef þú hefur verið að vinna með verkfæri sem gefa frá sér neista eins og slípirokk eða rafsuðu, gættu þess þá vel að loknu verki að ekki sé glóð í tuskum sem gæti svo valdið íkveikju.
- Vendu þig á að ganga vel frá öllum hlutum því röð, regla og snyrtimennska minnkar hættu á íkveikju.
Sameign
Fyrir þá sem búa í fjölbýli er ekki nóg að hugsa bara um íbúðina, heldur þarf líka að huga að brunavörnum sameignarinnar:
- Fylgjast með reykskynjurum og skipta reglulega um rafhlöður.
- Hafa slökkvitæki í sameign og láta fara reglulega yfir þau.
- Ef það er sameiginlegt þvottahús þarf að fylgjast vel með þurrkurum og þvottavélum.
- Sorpgeymslan þarf að vera vel læst, því það hefur komið fyrir að óprúttnir einstaklingar hafi farið inn og kveikt í rusli.
- Sjá til þess að ekki sé verið að geyma hættuleg efni og hluti sem geta valdið íkveikju í geymslum.
- Hjólageymslan má ekki vera svo full af dóti að ekki sé hægt að komast út um bakdyr með góðu móti ef það þarf að yfirgefa húsið í flýti.
Rafmagn
Rafmagnstaflan
Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Um hana fer allt rafmagn sem notað er á heimilinu. Öryggin í rafmagnstöflunni eiga að varna því að of mikið álag eða skammhlaup valdi tjóni. Í eldri töflum eru bræðivör sem skipta þarf um þegar þau springa en í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag. Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar inni í skápum þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilfellum er brýnt að láta löggiltan rafverktaka kanna ástand rafmagnstaflna og gera úrbætur áður en skaðinn er skeður. Bent skal á að í öllum rafmagnstöflum er mikilvægt að hafa skýrar og læsilegar merkingar sem sýna meðal annars hvaða öryggi og hversu sterk eru fyrir hvern húshluta.
Lekastraumsrofinn
Eitt helsta öryggistæki rafkerfisins er lekastraumsrofinn. Ef útleiðsla verður í raflögn, t.d. vegna bilunar í jarðtengdu tæki, á rofinn að slá út og rjúfa allan straum. Lekastraumsrofi kemur ekki að tilætluðum notum nema raflögnin sé jarðtengd og kanna þarf reglulega hvort hann virki með því að ýta á prófhnappinn.
Innstungur (tenglar)
Við sækjum rafmagn fyrir þau tæki sem við notum í innstungur (tengla). Þær ættu að vera sem víðast í hverri íbúð, helst fleiri en ein í hverju herbergi. Innstungur þurfa að vera vel festar og tengiklær eiga að sitja tryggilega í þeim því að sambandsleysi getur valdið hita. Áríðandi er að skipta strax um brotin lok á innstungum til að varna því að heimilisfólk eða gestir komist í snertingu við rafmagn. Hægt er að fá innstungur með barnavörn og ýmsan annan búnað til að varna því að óvitar stingi hlutum í þær og skaði sig.
Leiðslur og klær (spurning hvort nota eigi snúrur í stað leiðslur)
Leiðslur (lausataugar) flytja rafmagnið frá innstungunum í raftækin. Stundum þarf að nota fjöltengi (fjöltengla) og þá er vert að hafa í huga að ekki er gott að hafa mörg orkufrek raftæki tengd í eitt og sama fjöltengið. Til er góð regla sem segir að ekki eigi að setja meira en 2000W á hvern 10Ampera tengil. Einnig er varasamt að flytja rafmagn langar leiðir með grönnum, ójarðtengdum framlengingarleiðslum. Mikilvægt er að þessi rafbúnaður sé heill og óskemmdur. Brotnar klær og leiðslur með skemmdri einangrun bjóða hættunni heim. Jafnframt þarf að gæta þess að raftæki sem eiga að vera jarðtengd séu tengd í jarðtengdar innstungur og jarðtengingin ekki rofin með ójarðtengdu fjöltengi eða framlengingarleiðslu. Þetta á ekki síst við um tölvur og ýmsan tölvubúnað.
Ljósarofar
Á hverjum degi notum við ljósarofa til þess að kveikja og slökkva ljósin. Oft þarf að þreifa eftir rofum í myrkri. Þess vegna er afar brýnt að þeir séu vel festir, heilir og óbrotnir þannig að sem minnst hætta sé á að notandinn fái straum úr þeim. Rofar slitna með tímanum og sambandsleysi í þeim getur bæði verið óþægilegt og varhugavert. Nauðsynlegt er að fá löggiltan rafverktaka til að yfirfara rofa ef vart verður sambandsleysis eða þeir hitna mikið.
Ljós og önnur raftæki
Oft má ráða af ljósum og öðrum raftækjum hvort eitthvað er athugavert við rafkerfið. Ef skipta þarf oftar um perur í einu ljósastæði en öðru getur það m.a. bent til bilunar. Mikilvægt er að taka mark á slíkum fyrirboðum og láta löggiltan rafverktaka kanna hvað býr að baki. Ástæða er til að minna á að röng stærð eða gerð af peru getur orsakað bruna vegna þess hita sem myndast í ljósastæðinu. Til að mynda er varasamt að nota spegilperur í ljósastæði sem ekki eru sérstaklega gerð fyrir slíkar perur.
Kerti og skraut
Gætið vel að staðsetningu kerta
- Yfirgefið aldrei vistarveru þar sem kertaljós logar.
- Látið kerti aldrei loga innanhúss án eftirlits.
- Forðist að hafa kerti í dragsúgi.
- Vindsveipur eða gegnumtrekkur getur kveikt eld á ný.
- Forðist að koma kerti fyrir nálægt opnum glugga þar sem vindur getur sveiflað gluggatjöldum í kertalogann.
- Setjið kerti aldrei nálægt tækjum sem gefa frá sér hita s.s. sjónvarpi. Hiti frá tæki veldur aukinni hættu á óhappi.
- Staðsetjið ekki kerti þar sem kettir eða hundar geta hlaupið þau um koll.
Hafið eftirfarandi sérstaklega í huga
- Gætið þess að kerti séu vel föst í kertastjakanum.
- Gangið úr skugga um að undirlag kerta og kertaskreytinga sé stöðugt og óbrennanlegt.
- Hafið ekki mishá kerti of nálægt hvert öðru. Hiti frá lægra kerti getur brætt hærra kertið.
- Hafið hæfilegt bil á milli kerta, almenn viðmiðun er að hafa a.m.k. 10 cm. bil á milli kerta.
- Gætið að því að skraut s.s. borðar eða greinar séu aldrei of nærri kertaloganum.
- Eftir að kertalogi hefur verið slökktur getur ennþá leynst glóð í kveiknum. Góð regla er að væta kertakveikinn með vatni þegar slökkt er á kerti til að ekki leynist glóð.
- Kertakveikur á ekki að vera lengri en 1 cm. Klippið af kveiknum svo ekki sé hætta á að logandi kveikur detti af og brenni út frá sér.
- Treystið því aldrei að sjálfslökkvandi kerti slökkvi á sér sjálf.
Kennið börnum að umgangast kertaljós og eldfæri
- Fyrir börn hefur kertaljós sérstakt aðdráttarafl. Brýnið fyrir börnum að fara ætíð varlega með eld og gætið þess að börn leiki sér ekki án umsjónar nálægt logandi kertum.
- Eldspýtur og kveikjarar eru ekki barna meðfæri. Staðsetjið kveikjara og eldspýtur ávallt þar sem börn ná ekki til. Til eru kveikjarar með barnalæsingum sem eiga að koma í veg fyrir að börn geti kveikt á þeim.
Annað sem mikilvægt er að hafa í huga
- Útikerti eru oft staðsett þannig að hætta er á að yngsta kynslóðin rekist í þau og að yfirhafnir fullorðinna, sérstaklega kápur og frakkar, sláist í loga þeirra.
- Ef vatn kemst í vax útikerta er hætta á að heitt vaxið skvettist á fætur og hendur nálægra.
- Til eru eldtefjandi efni sem hægt er að úða yfir kertaskreytingar. Aldrei má þó treysta á að slíkt komi í veg fyrir bruna.
- Ekki setja kerti ofan í hvað sem er – falleg glös geta hitnað og sprungið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef kerti eru sett ofan í þau.
- Æskilegt er að setja reglur um notkun kerta og kertaskreytinga á vinnustöðum og að þær séu öllum starfsmönnum vel kynntar. Aldrei má skilja eftir logandi kerti eða kertaskreytingu í mannlausu herbergi s.s. í fundarherbergi eða á kaffistofu vinnustaðar.
Hvernig á að slökkva á kerti:
Aldrei má hella vatni á kerti, sérstaklega ekki útikerti. Best er að slökkva á kerti með því að nota kertaslökkvara. Þó eru til dæmi þess að áfram hafi rokið úr kveik kerta lengi eftir að loginn var kæfður. Reykurinn er í sjálfu sér skaðlaus en fyllsta ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar slökkt er á kerti. Til þess að öruggt sé að eldur lifi ekki lengur í kertakveik og vistarverur fyllist ekki af reyk, geta menn slökkt með kertaslökkvara og síðan lagt blautan fingur utan um kertakveikinn.
Kertastjakar:
Kertastjakar verða að vera úr óbrennanlegu efni sem leiðir ekki hita og vera stöðugir. Ekki eru öll ílát heppileg til nota sem kertastjakar og falleg glös eða ílát sem eru ekki sérstaklega ætluð undir kerti þola e.t.v. ekki hitann frá kertinu. Notið því ekki hvað sem er undir kerti.
Kertaskreytingar
Kertaskreytingar eru vinsælar en einnig afar eldfimar. Hafið kertaskreytingar ætíð á óbrennanlegu og stöðugu undirlagi, t.d. úr gleri eða málmi og gætið að því að kertaloginn nái undir engum kringumstæðum til skreytingarinnar. Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka. Oftast eru upplýsingar um brennslutíma á umbúðum kertanna sem gagnlegt er að kynna sér. Á markaðnum eru einnig fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar þannig að minni hætta er á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytinguna. Aldrei má þó treysta að slík efni komi í veg fyrir bruna.Margir kjósa að föndra eigin skreytingar eða jafnvel bara skreyta kerti ein og sér. Nokkuð hefur færst í vöxt að líma servéttur sem skraut utan á kerti. Ekki er mælt með slíku skrauti sökum eldhættu. Dæmi eru um að kviknað hafi í kertum sem eru með áföstu skrauti s.s. vanillustöngum, barri eða berjum þegar vaxið hefur bráðnað og logi kertisins náð í skrautið.
Fræddu börnin
Hvernig á að ræða eldvarnir við börn ?
Fyrir það fyrsta á aldrei að hræða börnin með eldinum. Útskýrið á rólegan hátt hvað eldurinn getur gert og leyfið þeim jafnvel finna hitann af logandi eldspýtu eða kerti með því að koma með hendi þeirra nálægt loganum. Virkið börnin til að verða eldvarnafulltrúi á heimilinu. Þannig geta þau t.d. minnt á að það þurfi að slökkva á kerti ef farið er út úr íbúðinni. Fáið börnin til að segja ykkur frá ef þau finna einhvers staðar eldspýtur eða kveikjara. Útskýrið fyrir þeim gagnsemi reykskynjarans og leyfið þeim að heyra hljóðið í honum. Notið t.d. afmælisdag barnsins til að skipta um rafhlöðu í honum. Útskýrið hvað reykurinn og hitinn geta gert okkur og að alltaf eigi að velta sér fram úr rúminu en ekki standa upp. Aldrei megi fela sig undir rúmum né inn í skápum. Alltaf eigi að þreifa hurðir áður en þær séu opnaðar og hvernig neyðaráætlun fjölskyldunnar virkar. Æfið hvernig yfirgefa á íbúðina með börnunum þannig að öllum sé ljóst hvað á að gera.
Með því að tala persónulega við barn þitt um eldinn, hætturnar af honum og hvernig best sé að bregðast við, undirbýrðu það fyrir lífið og getur frekar búist við að barnið bregðist rétt við, ef það sér eldspýtur á glámbekk eða ef það kviknar í.
Kenndu barninu þínu hvað það á að gera ef kviknar í fötum þess.
Fyrstu viðbrögð
Fyrstu viðbrögð við eldsvoða skipta sköpum
- Tilkynna öllum í húsinu um hættuna.
- Aðstoða þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir út úr húsinu.
- Tilkynna slökkviliði um eldinn – 112.
- Reyna að bjarga því sem mögulegt er eða slökkva eldinn ef áhætta er lítil, en fara út ella.
Eldurinn
Hvað er eldur?
Brunaþríhyrningurinn
Til þess að eldur geti logað þarf þrennt til, brennanlegt efni, súrefni og hita. Þessi þrenning er oft sett upp sem þríhyrningur. Til að eldur geti logað þurfa því allir armar þríhyrningsins að vera í réttum hlutföllum og snerta hvern annan.
Lítum aðeins nánar á þessi efni.
Brennanlegt efni er hægt að finna næstum hvar sem er. Allir vita að timbur, vefnaður (spurning hvort hér eigi að tala um fatnað í stað vefnaðar), pappír, gas, olíur og þess háttar efni brenna auðveldlega. Ekki gera þó allir sér grein fyrir því að járn og grjót brennur einnig, en það má sjá við logsuðu og þegar eldfjöll gjósa þá sletta þau bráðnu grjóti upp úr iðrum jarðar.
Hitinn sem er nauðsynlegur til að eldur kvikni er mjög misjafn. Það þarf mjög lítinn hita til að kveikja í pappír og bensíni. Timbur þarf hins vegar að hitna upp í 200-250°C áður en kviknar í því og járn þarf mun meiri hita til að bráðna.
Súrefni er eldinum jafn nauðsynlegt til að loga og manninum til að lifa. Í andrúmsloftinu er um það bil 21% súrefni. Eldur getur ekki lifað nema það sé yfir 16% súrefni í loftinu Minnki það niður fyrir 14% koðnar eldurinn niður og kafnar að lokum. Glóðin getur aftur á móti lifað lengur, allt niður að 0,2-0,3% súrefnis. Komist aukið súrefni að svæðinu, blossar eldurinn upp að nýju.
Ef hægt er að rjúfa þennan þríhyrning á einhvern máta slokknar eldurinn. Má segja að allt slökkvistarf, hvort sem notuð eru handslökkvitæki eða fullkomnustu slökkvitól, byggist á því að rjúfa þennan þríhyrning.
Svartur
Sumt fólk heldur að hægt sé að sjá til inni í herbergi þar sem eldur logar. Enn það er mesti misskilningur. Eldur myndar á örskammri stund svo kolsvartan reyk að ekki er hægt að sjá handa sinna skil.
Jafnvel þótt slökkviliðsmenn hafi sterk ljós með sér verða þeir iðulega að þreifa sig áfram með höndum og fótum þegar þeir leita að fólki sem hefur lokast inni.
Hættulegur
Annar hlutur sem vert er að geta um, er að það er ekki eldurinn sem er hættulegastur, heldur reykurinn og alls kyns eitraðar gastegundir sem myndast við brunann og eru lífshættulegar ef þeim er andað að sér. Eitt hættulegasta efnið er carbon monoxide. Það er ósýnilegt og lyktarlaust. Fyrst veldur það svima, svo ruglast fólk og missir að lokum meðvitund. Einmitt vegna þess að efnið er litar og lyktarlaust er það svo hættulegt því fólk verður ekki vart við það.
Heitur
Þriðja atriðið sem hafa ber í huga varðandi eldi er að innöndun á heitu lofti getur haft alvarlegar afleiðingar. Rúmri mínútu eftir íkveikju getur hiti í herbergi náð 150° á C.
Í slíkum hita verður líkaminn fyrir hitalosti og er þá óstarfhæfur. Við innöndun brenna lungun. Skömmu seinna mun hitinn í herberginu ná 600°C í höfuðhæð og 1000°C uppi við loft.
Hiti eykst mjög fljótt í eldi. Það er þekkt staðreynd að við venjulegan herbergisbruna getur svokölluð yfirtendrun átt sér stað á 3 – 5 mínútum. Þá brennur allt í herberginu, loft, veggir, húsgögn og gólfefni.
Hraður
Fjórða atriðið er að þú hefur aðeins nokkrar sekúndur til að forða þér. Flestir halda að þeir hafi nokkrar mínútur til umráða en svo er ekki. Fólk sem hleypur frá litlum eldi til að ná í slökkvitæki kemur jafnvel að alelda herbergi og er í reynd heppið að komast út. Eldur sem kviknar í ruslafötu getur breiðst út um herbergi á tveim mínútum með hita sem er svo mikill að þú missir meðvitund nær samstundis. Á þriðju mínútu er öllum ólíft í herberginu og eldurinn sækir í sig veðrið með ógnarhraða. Á fimmtu til sjöundu mínútu má reikna með að eldurinn nái að kveikja í öllum herbergjum í tveggja hæða einbýlishúsi. Neyðaráætlun er nauðsynleg svo allir eigi sem besta möguleika á að komast lifandi út. Tíminn sem þú hefur til að komast út úr húsinu þínu er um það bil þrjár mínútur.
Gerum ráð fyrir að eldurinn hafi kviknað í herbergi þar sem ekki er reykskynjari. Þá má ætla að það taki reykinn um tvær mínútur að ná til hans. Þá er aðeins ein mínúta eftir til að komast út. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að ákveða fyrirfram hvað á að gera. Það er gert með neyðaráætlun fyrir alla í fjölskyldunni.
Skynjarar
Reykskynjarar eru ein ódýrasta líftrygging sem hægt er að fá og ættu þeir að vera á hverju heimili. Hér eru nokkrar upplýsingar um reykskynjara og hvernig best er að velja þá.
Jónískir (sá sem þefar – Jón með stóra nefið?)
Jónískur reykskynjari nemurbest heitan reyk, t.d. eld í pappír, vefnaði, timbri, feitispotti eða þar sem eldur er sjáanlegur. Hann hentar vel í herbergi þar sem ekki er mikið um rafmagnstæki. Hann hentar illa nálægt eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi vegna mögulegra falsboða. Dæmi um falsboð er t.d. vegna brauðristar, steikingar á pönnu og gufu frá þvottahúsi og baði. Segja má að hann sé eins og nefið á mönnum, hann finni lykt!
Optískir (sá sem sér – Obbi með ofursjónina?)
Optískur skynjari nemurbest kaldan og sýnilegan reyk sem myndast þegar rafmagnstæki og raflagnir brenna. Einnig skynjar hann vel hægan bruna, s.s. þegar sígarettuglóð hefur fallið ofan í sófa. Optískur skynjari hentar því vel þar sem mikið er um rafmagnstæki eins og í stofum, sjónvarpsherbergjum og barnaherbergjum. Einnig hentar hann vel í opin rými og við eldhús og þvottahús.
Segja má að hann sé eins og augu manna, hann sjái agnir.
Gasskynjarar
Própangas er að finna víða á heimilum, í sumarhúsum, hjólhýsum og fellihýsum. Ef própangas losnar úr læðingi getur lítill neisti valdið sprengingu. Því eru gasskynjarar nauðsynlegur hluti af öryggisbúnaði heimilisins. Til eru bæði gasskynjarar drifnir rafhlöðu, húsarafmagni og 12 volta rafmagni. Gasskynjarinn skynjar strax gaslekann ef hann er rétt staðsettur. Própangas er þyngra en loft og leitar þess vegna niður. Best er að staðsetja skynjarann u.þ.b. 30 cm fyrir ofan gólfflöt.
Samtengjanlegir
Bæði jónískir og optískir skynjarar og fleiri tegundir fást samtengjanlegir. Þetta er þráðlaus tenging og virkar þannig að ef einn skynjari fer í gang sendir hann boð í hina sem fara þá í gang.
Þessir skynjarar henta vel í hús sem eru á fleiri en einni hæð t.d. ef þvottahús er í kjallara og það kviknar í sendir reykskynjarinn þar boð í skynjarann á fyrstu hæð og hann fer í gang. Þetta tryggir að þú heyrir örugglega í skynjaranum.
Hvar og hvernig
Hvernig reyksskynjara á að hafa og hvar eiga þeir að vera? Híbýli manna eru mismunandi og því verður að meta hvert húsnæði með tilliti til stærðar og gerðar. Hér eru nokkur atriði sem ættu að hjálpa þér við val og staðsetningu.
Hve marga?
Á nútíma heimili ætti að vera einn reykskynjari í hverju herbergi. Sérstaklega á þetta við um barnaherbergi þar sem tölva, sjónvarp og hljómflutningstæki eru til staðar. Einnig þarf reykskynjara í stofuna, við eldhúsið, við þvottahúsið, á ganga og í bílskúrinn. Ef hús er á mörgum hæðum þurfa reykskynjarar að vera á hverri hæð.
Hvernig
Til þess að velja rétta tegund getum við haft til hliðsjónar umfjöllunina um jóníska og optíska reykskynjarann:
- Stofan: Ef sjónvarp og önnur rafmagnstæki eru í stofunni ætti að vera optískur skynjari.
- Eldhúsið: Ekki skal setja skynjarann inn í eldhúsið heldur við það. Optískur verður þar fyrir valinu því minni hætta er á falsboðum frá honum.
- Svefnherbergi: Ef raftæki eins og sjónvarp, hljómflutningstæki og tölva eru í herberginu, ætti að vera optískur skynjari þar, en annars jónískur.
- Opin rými: Í ganga og stigaop eru jónískir reykskynjarar æskilegir.
- Þvottahúsið: Í þvottahúsið setjum við optískan skynjara því jónískur er vís með að vera með falsboð vegna gufu. Ef optíski skynjarinn er inni í þvottahúsinu og fer oft í gang vegna gufu, skaltu prófa að færa hann og setja hann við þvottahúsið.
- Bílskúrinn: Í bílskúrnum ætti að vera optískur skynjari, en ef mikið er unnið í bílskúrnum við smíðar, rafsuðu og þess háttar, ætti þar að vera hitaskynjari (þarf að útskýra?).Best er ef skynjarinn í bílskúrnum er tengdur við annan inni í íbúðinni.
Staðsetning reykskynjara
Staðsettu reykskynjarana eftir leiðbeiningum framleiðendanna (má ekki sleppa þessu? Er ekki verið að setja upp leiðbeiningar hér?).
- Staðsettu reykskynjarana ávallt eins hátt uppi eins og hægt er vegna þess að reykur stígur upp. Staðsetjið þó aldrei reykskynjarana í kverkinni milli lofts og veggjar, vegna þess að. u.þ.b. 25 cm svæði niður á vegginn eða út á loftið er oft á tíðum reyklaust. Forðist að setja reykskynjara á það svæði.
- Í risi eða á hallandi lofti skal staðsetja skynjarana eins ofarlega og hægt er.
- Í opnum stigagöngum þar sem hvorki eru hurðir niðri eða uppi, skal staðsetja reykskynjara á hverjum þeim stað þar sem má ætla að reykur nái að stöðvast á leið sinni upp stigaganginn.
- Þar sem hurð er efst í kjallarastiga, er best að staðsetja reykskynjarann neðst við stigann, þar sem dautt loft getur verið til staðar efst í stiganum við dyrnar og hindrað að reykur nái þangað fyrr en seint og um síðir.
- Staðsetjið reykskynjara ekki nálægt gluggum, hurðum eða á öðrum þeim stöðum þar sem dragsúgur getur hindrað starfsemi þeirra.
Viðhald / eftirlit
Fjórðungur reykskynjara virkar því miður ekki vegna þess að einhver bilun er í þeim eða að í þá vantar rafhlöðuna.
Hafðu fyrir reglu að prófa reykskynjarana þína einu sinni í mánuði. Settu nýja rafhlöðu í reykskynjarann a.m.k. einu sinni á ári. Ef reykskynjarinn gefur frá sér stutt hljóð á u.þ.b. 1/2 mínútu fresti, skaltu skipta um rafhlöðu strax, því það er merki um að rafhlaðan sé að verða tóm.
Ryk og önnur óhreinindi geta gert reykskynjarann ónæman fyrir reyk, en einnig ofurnæman. Hreinsaðu hann því reglulega, t.d. með því að ryksuga hann og/eða blása úr honum ryk. Málaðu aldrei reykskynjarann, málning getur varnað því að reykur komist inn í hann.
Við prófanir á skynjaranum er þrýst á prófunarhnapp hans og honum haldið inni í nokkrar sekúndur. Einnig er gott að láta reyk (kveikja í blaðbút í öskubakka undir honum) liðast að honum. Hann þagnar þegar reyknum er blásið burtu.
Fölsk boð
Reykskynjarar geta stundum gefið fölsk boð, þá oftast vegna gufu frá baðherbergi eða lyktar úr eldhúsi. Ef þetta gerist oft skaltu prófa að færa reykskynjarann til um nokkra cm. frá eldhúsinu eða baðherberginu. Þrífðu reykskynjarann reglulega. Dugi það ekki, skiptu þá um reykskynjara eða fáðu þér reykskynjara með „seinkunarhnapp“ sem þaggar niður í skynjaranum í ákveðinn tíma, t.d. 3 mínútur en gerir hann síðan fullvirkan aftur.
Slökkvitæki
Slökkvitæki eru nauðsynlegur hluti af öryggistækjum heimilisins. Að geta slökkt eld í fæðingu getur komið í veg fyrir verulegt tjón og slys á fólki.
Flokkun elda
Eldar eru flokkaðir í brunaflokka eftir því hvað er að brenna. Um er að ræða þrjá aðal flokka sem við köllum A, B og C. Þeir taka yfir flest það sem brennur en að auki höfum við D og E fyrir sjaldgæfari og þá oft varasamari elda.
Slökkviaðferðin fer síðan eftir tegund og umfangi brunans. Engir tveir eldar eru eins, en þó eiga þeir margt sameiginlegt.
A-eldar eru oftast í föstum efnum, svo sem í timbri, pappír, fatnaði og fleiri efnum sem geta myndað glóð.
A-eldar brenna bæði við yfirborð efnisins og inni í því. Besta slökkviefnið við slíka elda er kælandi efni sem með áhrifum sínum nær inn í innstu lög efnisins og slekkur þar með glóðina.
B-eldar eru eldar í eldfimum vökvum s.s. alls konar olíum, málningu, feiti, sem og í föstu efni sem bráðnar. Slíkir eldar brenna frá yfirborði efnisins. Besta slökkviaðferðin við B-elda er kæfing.
EKKI MÁ NOTA VATN á B-elda.
C-eldar eru eldar í gasi og er allt gas flokkað undir þessa skilgreiningu.
(Breyta framsetningu. Fyrir hvað / Ekki fyrir. Notkun á unda lýsingu. )
Vatn
Fyrir hvað?
Vatnsslökkvitæki er fyrir elda í flokki A. Það notast á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað), pappír o.þ.h. Slekkur bæði loga og glóð.
Ekki fyrir:
Vatn má ekki nota á elda í olíu, feiti né í virkum rafmagnstækjum.
Lýsing:
Hylkið er úr ryðfríu stáli og er til ýmist 9 eða 10 lítra. Niður í gegnum tækið frá handfangi í gegnum loka gengur rör niður í botn tækisins sem vatnið fer um á leið úr tækinu. Á handfanginu er loftmælir sem segir til um þrýsting þann sem á tækinu er hverju sinni. Einnig er á handfanginu ventill til að blása lofti í tækið. Handfang tækisins er tvískipt og er það neðra burðarhandfang en með því að þrýsta því efra að því neðra er tækið gert virkt. Öryggispinni er í gegnum neðri hluta handfangsins til að ekki verði hleypt af því í ógáti.
Notkunartími: u.þ.b. 50 sek.
Kastlengd: u.þ.b. 10 metrar.
Notkun:
Fjarlægið öryggispinnann, beinið stútnum að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og til beggja hliða.
Þegar mestur eldurinn hefur verið slökktur, setjið þá fingur framan við stút tækisins og sprautið þannig úr tækinu. Við þetta myndast úði sem slekkur mun betur og sparar um leið vatnið.
Athugið!
Þegar slökkt er með vatni myndast alltaf mikið magn gufu. Hitinn af gufunni getur brennt illa, þótt hitinn af eldinum sé bærilegur.
Við það að sprauta slökkviefni á eld fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
Aldrei má nota vatnstæki við olíu- eða feitiselda. Olían mun fljóta ofan á vatninu og aðeins breiða eldinn enn frekar út. (Má færa þennan part undir „Ekki fyrir“)
ATH! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.
Duft
Fyrir hvað?
Dufttæki er fyrir elda í A, B og C flokki. Slekkur illa glóð í föstum efnum og best að slökkva hana með vatni. Athugið að mikill sóðaskapur fylgir dufttækinu og því betra að nota vatn eða eldvarnarteppi ef um lítinn eld t.d. í skreytingu er að ræða, svo tjónið af völdum slökkvistarfsins verði ekki meira en tjón af völdum eldsins.
Ekki fyrir:
Slekkur illa glóð í föstum efnum og best að slökkva hana með vatni.
Lýsing:
Hylkið er úr járni og tekur ýmist 6 eða 12 kg. Efst á tækinu er burðarhandfang og lok það sem opnað er við áfyllingu. Ofan á lokinu er hnúður sem slegið er á þegar gera á tækið virkt. Öryggispinni er þó í gegnum hnúð þennan með innsiglisvír þannig að hægt er að sjá hvort átt hefur verið við tækið. Inni í tækinu er lítil koltvísýringsflaska áföst við lokið, frá henni liggur rör niður að botni tækisins þannig að þegar þrýstingurinn fer inn slökkvitækið, eykur hann rúmmál sitt 450 sinnum, rótar upp í duftinu og þrýstir því út í slönguna sem beint er að eldinum. Á enda slöngunnar er griploki þar sem hægt er að stjórna flæði duftsins með því að kreista eða slaka á honum að vild.
Notkunartími:
6 kg. 10-15 sek.
12 kg. 16-20 sek.
Kastlengd: 5-8 metrar
Notkun:
Takið öryggispinnann úr (innsiglisvírinn mun rofna), sláið þéttingsfast á hnúðinn, beinið slöngunni að rótum eldsins, kreistið griphandfangið og beinið duftinu hratt yfir allt hið brennandi svæði. Haldið áfram þar til engan eld er að sjá. Slakið þá á griphandfanginu og bíðið átekta. Endurtakið aðferðina ef eldur blossar upp á ný. ATHUGIÐ! Duft slekkur illa glóð, þannig að ef myndast hefur glóð í föstum efnum, bleytið þá með vatni.
Athugið!
Mikill kraftur er í tækinu í upphafi, sprautið því aldrei beint ofan í olíupoll né t.d. á pott á eldavél nema með ýtrustu varúð.
Við að sprauta slökkviefni á eld, fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
ATH ! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.
Léttvatn
Fyrir hvað?
Léttvatnsslökkvitæki eru fyrir A og B elda. Notist á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað) og pappír. Notist einnig á elda í olíu og feiti.
Ekki fyrir:
Notist ekki á elda í virkum rafmagnstækjum sé aðvörun þar að lútandi á tækinu.
Lýsing:
Léttvatnsslökkvitæki eru að mestu eins og venjuleg vatnstæki, þ.e. þau geta verið úr ryðfríu stáli líkt og loftþrýstu vatnstækin eða járntæki með plasthúð að innan líkt og önnur vatnstæki. Munurinn liggur einungis í stút tækisins sem er þannig gerður að hann tekur inn loft og blandar froðuvökvanum. Léttvatnstæki fyrir heimili eru yfirleitt 9 lítrar.
Notkunartími: 9 l u.þ.b. 40 sek.
Kastlengd: u.þ.b. 5-7 metrar
Notkun:
Fjarlægið öryggispinnann, beinið stútnum að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og til beggja hliða.
Við olíuelda er best að reyna að sprauta á einhvern kant eða vegg og flæðir þá létta vatnið betur yfir hinn brennandi flöt.
Athugið!
Léttvatn er tærandi efni og þarf því að þrífa járnhluti með hreinu vatni á eftir. Froðulögurinn eintómur virkar svipað og málningaruppleysir.
Við það að sprauta slökkviefni á eld, fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
Mikill munur er á stútum léttvatnsslökkvitækis og á venjulegs vatnsslökkvitækis
Koltvísýrings
Fyrir hvað?
CO2er fyrir elda í flokki B og C. Það notast á elda í virkum rafmagnstækjum, olíuelda og gas. Má nota á A-elda en slekkur illa glóð, slökkvið hana með vatni.
Ekki fyrir:
Notist ekki í litlum lokuðum rýmum þar sem CO2 ryður burtu súrefninu.
Notist ekki á fólk, það gæti kalið.
6 kg CO2 slökkvitæki
Lýsing:
Hylkið er úr stáli og er því nokkuð þungt miðað við stærð. Tækin eru til ýmist 4, 6 eða 7 kg. Handfang tækisins er tvískipt og er það neðra burðarhandfang en með því að þrýsta því efra að því neðra, er tækið gert virkt. Öryggispinni er í gegnum neðri hluta handfangsins til að ekki verði hleypt af því í ógáti. Athugið innsiglisvírinn sem rofnar við að taka pinnann úr.
Tækin eru auðþekkt vegna hinnar stóru trektar. Haldið aðeins um handföng tækisins vegna hins mikla kulda sem úr tækinu kemur, ykkur gæti annars kalið.
Notkunartími: u.þ.b. 20-24 sek.
Kastlengd u.þ.b. 4 metrar
Notkun:
Fjarlægið öryggispinnann, haldið einungis um handföng tækisins, beinið trektinni að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og sveipið til beggja hliða líkt og verið sé að mála með málningarrúllu þar til allur eldur hefur örugglega verið slökktur.
Athugið!
Þegar slökkt er með CO2 minnkar súrefnismagnið í rýminu, þar sem koltvísýringurinn ryður því í burtu. Fyrstu einkenni sem benda til þess að um minnkað súrefni sé að ræða er hraðari öndun.
Beinið hvorki CO2 að fólki né reynið að slökkva eld í fólki með því, það gæti kalið því hitastig CO2 er -75c°.
Við það að sprauta slökkviefni á eld fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
CO2slökkvitæki slökkva glóðarelda illa, slökkvið glóð með vatni.
ATH ! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.
Sjónvarp
Sjónvarpsslökkvitæki er mjög góður öryggisbúnaður sem auðvelt er að koma fyrir í raftækjum eins og sjónvarpi, þvottavélum og þurrkurum. Prófanir hafa sýnt að tækin slökkva eldinn á skömmum tíma og veita mikið öryggi. Það sem gerist er að um leið og eldur verður laus, t.d. í sjónvarpi, skynjar slökkvitækið það og losar frá sér efni sem ryður frá sér súrefninu og þá slokknar eldurinn. Það er því ljóst að þetta er ómissandi búnaður í sjónvarpið, þurrkarann og þvottavélina.
Eldvarnarteppi
Nokkrar stærðir af eldvarnarteppum eru á markaði hérlendis, eru þær hugsaðar til að geta þjónað sem flestum, heimilum, veitingastöðum og verkstæðum. Algengustu stærðirnar fyrir heimili eru 90 x 90 cm.
Lýsing:
Eldvarnarteppunum er venjulega pakkað í rauða poka, hvítar plastpakkningar eða rauða járnhólka. Neðan úr þessum pakkningum eru ávallt tveir spottar sem gera það auðvelt að ná teppinu úr pakkningunum. Teppin sjálf eru gerð úr trefjaefni úr gleri sem brenna mjög treglega. Eldvarnarteppin má nota aftur og aftur og ef svo fer að þau verði mjög sótug er hægt að skola úr þeim í þvottabala. Ekki má setja þau í þvottavél. Að þurrkun lokinni eru þau einfaldlega brotin saman og sett í pakkninguna aftur. Athugið að láta spottana tvo standa út úr pakkningunni.
Notkun:
Dragið teppið úr pakkningunni með því að toga í spottana, haldið síðan um þá og snúið hálfhring upp á teppið til að skýla höndunum. Haldið teppinu í framréttum höndum og leggið yfir hinn brennandi hlut. Leggið teppið yfir hinn brennandi flöt til að minnka súrefnismagn það sem liggur á milli hlutarins og teppisins.
Athugið!
Ef teppið nær að fara ofan í logandi olíu t.d. í potti á eldavél, mun loga upp í gegnum teppið. Takið það þá af, leggið á gólfið og slökkvið í því með fótunum og byrjið upp á nýtt.
Geymið teppið ekki of nálægt gufugleypinum, þar sem fita getur þá sest á teppið og gert það ónothæft til slökkvistarfa. Setja skal teppið á áberandi stað svo það gleymist ekki í hita leiksins.
Hvernig slökkvitæki hentar?
Hvernig slökkvitæki hentar best inn á heimili?
- Allir ættu að hafa eldvarnarteppi í eldhúsinu.
- Gott er að hafa sjónvarpsslökkvitæki í sjónvarpinu.
- Slökkvitækið sem hentar best fyrir heimili er léttvatnstæki því það hentar á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað?) og pappír. Notast einnig á elda í olíu og feiti þ.e. A+B elda. Þó svo duft henti á A+B+C elda slekkur það illa glóð og því fylgir mikill sóðaskapur sem getur valdið miklu tjóni því duftið fer um allt og inn í rafmagnstæki. Því er 9 lítra léttvatnstæki hentugast fyrir heimilin.
Hvar á slökkvitækið að vera?
Slökkvitæki eiga að vera staðsett við flóttaleiðir. Þau eiga að vera á áberandi stað, aðgengileg og allir eiga að kunna á þau.
Viðhald
Ekki er nægjanlegt að vera með slökkvitæki og fylgjast ekkert með því. Það þarf að fara með það í skoðun einu sinni á ári til viðurkennds aðila. Svo er nauðsynlegt að kíkja á þrýstingsmæli og innsigli tækisins u.þ.b. einu sinni í mánuði. Það er gert til sjá hvort þrýstingur hafi nokkuð fallið eða innsigli rofnað..
Flóttaleiðir
Skref 1
Hafðu tvær leiðir út
Hafðu ávallt tvær leiðir greiðar frá hverju herbergi heimilisins, sérstaklega frá svefnherbergjunum. Gerðu teikningu af heimili þínu þar sem sjáanlegar eru allar dyr og gluggar. Skipulegðu með heimilisfólkinu hvað hver á að gera. Ef þú átt heima í fjölbýlishúsi, þá eiga flóttaleiðir að leiða fólk í stigaganga eða á svalir. Aldrei má nota lyftu í eldsvoða því hún getur stöðvast á þeirri hæð sem eldurinn er á.
Farðu yfir allar flóttaleiðir sem þið hafið ákveðið. Athugaðu hvort ekki sé hægt að opna allar dyr og glugga auðveldlega, jafnvel í myrkri. Ef þú átt heima á efri hæð/hæðum, athugaðu þá hvort ekki sé hægt að koma fyrir brunastiga úr glugga eða af svölum þannig að þið eigið örugga leið niður. Hafðu einnig við höndina breitt límband til að líma fyrir hurðir til að seinka því að reykur komist inn í íbúðina.
Ef á heimilinu eru lítil börn eða hreyfihamlaðir einstaklingar, látið þá viðkomandi helst sofa á neðri hæðum eða gerið aðrar viðeigandi ráðstafanir til þess að þau komist örugglega út.
Skref 2
Ákveðið mætingarstað úti
Verið viss um að allir viti að þeir eigi að fara út strax og vart verður við eld. Hringið í slökkviliðið úr öruggum síma, t.d. frá nágrannanum. Þegar út er komið ættu allir að hittast á fyrirfram ákveðnum stað þar sem slökkviliðið kemur að byggingunni. Farið ekki inn í bygginguna aftur eftir að út er komið. Tilkynnið slökkviliðinu ef einhver er lokaður inni og látið slökkviliðsmennina um björgunina. Þeir hafa tækin og þekkinguna til þess að fara um brennandi hús.
Skref 3
Æfðu flóttaáætlunina
Á hvert skipti sem þú og fjölskylda þín hafið eldvarnaæfingu, líktu þá eftir raunveruleikanum eins og hægt er. Æfðu flóttaáætlunina a.m.k. á sex mánaða fresti. Fáðu einhvern til að líkja eftir hljóði reykskynjarans og til að fylgjast með að allir taki þátt af fullri einlægni.
Meira en helmingur allra bruna á sér stað þegar fólk er í fasta svefni. Byrjið því æfinguna á því að allir fari í sitt svefnherbergi og bíði þar eftir viðvöruninni. Gerið æfinguna eins raunverulega og hægt er og æfið að fara út um báðar flóttaleiðirnar. Látið eins og einhverjir hlutar hússins og þar með flóttaleiðir séu lokaðar af eldi og reyk, það séu engin ljós og að stigagangar séu fullir af reyk.
Skref 4
Vertu viðbúinn hinu óvænta
Við raunverulegan eldsvoða getur reykur og eldur lokað flóttaleiðum þínum. Bæði reykur og eldur eru lífshættulegir. Þreifaðu því ávallt hurðir áður en þú opnar þær. Krjúptu eða skríddu að hurðinni, teygðu höndina eins hátt upp og hægt er og leggðu hana að hurðinni, hurðarhúninum og rifunni milli stafs og hurðar. Ekki opna hurðina ef hurðin er heit, notaðu heldur hina flóttaleiðina þína. Opnaðu hurðina með varúð þótt hurðin sé köld og vertu tilbúinn að loka henni aftur ef hiti og/eða reykur kemur inn. Skríddu undir reyknum. Reykurinn er lífshættuleg gastegund.
Notaðu hina flóttaleiðina ef þú verður var við reyk, ef það er mögulegt. Ef eina leiðin sem þú hefur er í gegnum reykinn, skríddu á höndum og fótum með höfuðið eins lágt og þú getur að næsta útgangi. Reykurinn er heitur og mun stíga upp á við, þess vegna getur verið þokkalegt loft niðri við gólf (10-20 cm.) í nokkurn tíma.
Vatnslekar
Forvarnir
Flest vatnstjón verða vegna þess að rör ryðga í sundur þar sem vatn hefur komist í umhverfi þeirra. Vatnstjón gera stundum boð á undan sér. Rakamerki á veggjum, gólfum eða loftum benda til að vatn sé farið að leka, annað hvort úr lögnum eða utan frá. Algengt er að rakamerki lýsi sér þannig að málning og flísar bólgna upp og losna jafnvel af. Dökkir blettir myndast þar sem raki er, finna má lykt. Lítil skordýr geta einnig fylgt raka (rakamaurar, þúsundfætlur, grápöddur, járnsmiðir).
Þegar farið er í frí skal loka tryggilega fyrir vatn að þvottavél og uppþvottavél. Á sumrin er einnig tilvalið að loka fyrir stofnloka (inntaksloka) í húsið, bæði fyrir heitt og kalt vatn. Ekki má gleyma að gúmmílagnir, t.d. að þvottavélum og uppþvottavélum, fúna með tímanum og geta valdið stórtjóni ef þær bresta. Þessar lagnir þarf að endurnýja með jöfnu millibili.
Mjög algengt er að ekki sé gengið nægilega vel frá þéttingu umhverfis rör að blöndunartækjum við baðker og sturtu. Í hvert skipti sem farið er í sturtu rennur því vatn inn með rörunum og inn í vegginn þar sem það safnast fyrir og tærir lagnirnar, sem yfirleitt eru lagðar inn í innveggi húsa og síðan múrað yfir. Nota þarf vandað kítti til þéttingar röra þar sem þau fara inn í vegg.
Svokallaðar rósettur þjóna þeim tilgangi einum að fela gatið umhverfis rörin. Komist vatn inn í þessa einangrun myndast öll skilyrði fyrir tæringu lagnanna, þ.e. raki og hiti frá hitaveitulögnum. Dæmi eru um að lagnir hafi tærst í sundur í í 2ja – 3ja ára gömlum húsum við þessar aðstæður.
Vatnsskynjarar: Til eru vatnsskynjarar sem settir eru á gólf eða í botna á skápum og bregðast þeir við með væli um leið og raki kemst í þá og þú getur þá brugðist við og komið í veg fyrir verulegt tjón.
Viðbrögð
Veist þú hvar lokað er fyrir vatnið á heimili þínu ef lögn fer að leka?
Ef ekki, skaltu kanna hvar stofnlokar eru og sýna öðru heimilisfólki hvar hægt er að loka fyrir vatnið.
Ef vatn fer að leka er eina ráðið að skrúfa fyrir vatnið í stofnlokum til þess að stöðva lekann. Ef lekinn er það mikill að þú treystir þér ekki til þess að hreinsa hann skaltu hringja í 112 og óska eftir aðstoð frá tryggingafélagi.
Viðbrögð við jarðskjálfta
Innandyra
Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr byggingu. Reynið frekar að leita skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra t.d. út í horni við burðarveggi fjarri gluggum. Ef þú er sofandi og vaknar upp við jarðskjálfta, haltu þá kyrru fyrir og notaðu kodda til að verja höfuðið. Ef það verður jarðskjálfti hafið þá eftirfarandi í huga:
Húsgögn
Varist húsgögn sem geta hreyfst úr stað.
Innihald skápa
Varist hluti sem detta úr hillum og skápum, sérstaklega í eldhúsi.
Ofnar og kynditæki
Haldið ykkur fjarri ofnum og kynditækjum sem hendast út af festingum.
Rúðbrot
Varist stórar rúður sem geta brotnað.
Byggingarhlutar
Við jarðskjálfta geta hlutar úr byggingunni brotnað af. Haldi ykkur fjarri þeim stöðum í húsinu þar sem hætta er á hrynjandi byggingahlutum.
Gott er að setja á minnið orðaröðina: KRJÚPA – SKÝLA – HALDA
Gæta þess að verða ekki fyrir hlutum sem kunna að falla, með því m.a. að:
Fara út í horn burðarveggja, KRJÚPA þar, SKÝLA höfði og HALDA sér ef unnt er.
Fara í opnar dyr, KRJÚPA þar, SKÝLA höfði og HALDA sér í karm.
Fara undir borð, KRJÚPA þar, SKÝLA og HALDA í borðfót.
Ekki hlaupa um stefnulaust innandyra,
né hlaupa út í óðagoti.
Utandyra
Ef þú ert utandyra eða í bifreið og það verður jarðskjálfti, hafðu þá eftirfarandi í huga:
Byggingar og raflínumöstur
Farið út á opið svæði, forðist byggingar og raflínumöstur. Farið lengra frá mannvirkjum en nemur hæð þeirra.
Krjúpa – Skýla – Halda
Krjúpa og skýla höfði ef ekki er unnt að komast á opið svæði.
Grjóthrun- skriðuföll
Varist grjóthrun og skriðuföll í fjalllendi.
Stöðvið ökutæki
Stöðvið bifreiðina eins fljótt og unnt er, fjarri byggingum, vegbrúm eða háspennulínum og haldið ykkur í bifreiðinni, með beltin spennt, þar til skjálftanum lýkur. Haldið þá varlega áfram og gætið að, því brýr og vegir geta skemmst í stórum skjálftum
Viðbrögð eftir jarðskjálfta