Okkar öryggi!!
Okkar öryggi!
Samfélagið okkar hér á Suðurlandi hefur þurft að horfast í augu við erfiða atburði hvað eldsvoða varðar. Því miður kemur það fyrir að eldar kvikna í íbúðarhúsnæði, slys verða, eigur tapast og því miður gerist það stundum að fólk lætur lífið í þessum sorglegu atburðum.
Hvað getum við gert til þess að minnka líkurnar á að illa fari? Að fara varlega með eld og rafmagnsvörur er lykilatriði hvað þetta varðar. Ekki skilja logandi eld eftir í rýmum þar sem enginn er. Haga uppsetningu kerta og kertaskreytinga þannig að loginn komist ekki að öðru brennanlegu efni hvorki með beinni snertingu né þannig að geislunarvarmi frá loganum nái að hita annað brennanlegt efni svo í því geti kviknað.
Ef hinsvegar eldur kemur upp og hægt er að komast að til að slökkva á upphafsstigi hans, er mikilvægt að slökkvitæki séu til staðar og að þau hafi verið yfirfarin reglulega þannig að virkni þeirra sé sem tryggust. Við hjá slökkviliðunum mælum einnig með því að fólk eigi auk slökkvitækja, eldvarnateppi til þess að geta breitt yfir og kæft eldinn sé þess kostur. Þetta á sér í lagi við um eld í eldunaráhöldum á eldavélum en má svo sannarlega nota í fleiri tilfellum.
Reykskynjarar eru einhver ódýrasta líftrygging sem við getum fjárfest í. Á undanförnum árum hefur samsetning efna í húsgögnum breyst til muna og brenna þau nú mun hraðar en áður og gefa frá sér mun eitraðri reyk en þau gerðu fyrir nokkrum áratugum síðan. Þetta veldur því að ef upp kemur eldur á heimilum fólks hefur það umtalsvert skemmri tíma til þess að forða sér út úr húsnæðinu áður en illa kann að fara. Rétt staðsettir reykskynjarar vara okkur við hættunni á upphafsstigi eldsins og gefa okkur þar með þann kost að geta gripið inn í atburðarrásina eða þá möguleika á að forða okkur út meðan tækifæri er enn til. Einnig gefa hljóðmerki frá reykskynjurum okkur tækifæri á að hringja í Neyðarlínuna 112 fyrr en ella, eftir aðstoð slökkviliðs sem eykur líkurnar á því að slökkvilið nái að grípa inn í atburðarrásina áður en miklar skemmdir verða.
Margir hafa sett það fyrir sig að þeir gleymi að skipta um rafhlöður í reykskynjurunum sínum en í hefðbundnum skynjurum hefur hingað til þurft að skipta um rafhlöður einu sinni á ári. Slökkviliðsmenn hafa þá gjarnan bent fólki á að fyrsti desember ár hvert er alþjóðlegur dagur reykskynjarans og því tilvalið að hafa það sem reglu hjá sér að skipta um rafhlöður á þeim degi. Gott er að prófa reglulega yfir árið virkni reykskynjaranna með því að ýta á prófunarhnappinn sem á þeim er.
Í dag eru einnig komnir á markaðinn reykskynjarar sem endast í allt að tíu ár. Að þeim tíma loknum er skynjaranum sjálfum skipt út og kemur því ekki til að skipta þurfi um rafhlöður í þeim.
Í þessum efnum þarf hver og einn að finna sína leið en um mikilvægi þess að hafa reykskynjara á heimilum verður ekki deilt.
Hugsaðu þig tvisvar um húsráðandi góður áður en þú býður einhverjum gistingu á heimili þínu (fjölskyldumeðlim eða gestum), án þess að hafa þessi mikilvægu öryggismál í lagi.